-3.5 C
Selfoss

Innleiðing á stöðumati fyrir nýja nemendur af erlendum uppruna

Vinsælast

Sveitarfélagið Árborg ásamt Hafnarfirði og Reykjanesbæ í samstarfi við Menntamálastofnun hafa unnið að þýðingu og staðfæringu á sænsku stöðumatstæki sem hefur verið notað með góðum árangri í Svíþjóð fyrir nýja nemendur af erlendum uppruna sem eru tiltölulega nýkomnir til landsins. Lagt er m.a. mat á fyrri þekkingu, reynslu læsi og talnaskilning. Meginmarkmið þessa stöðumats er að styðja skólana í að staðsetja nemendur hvað varðar fyrri þekkingu, reynslu og auðvelda þar með kennurum og skólastjórnendum að skipuleggja nám hvers nemanda út frá styrkleikum hans og þörfum.

Níu manna stýrihópur verkefnisins hefur verið starfandi í tvö ár en fulltrúar Árborgar í stýrihópnum eru þau Aneta Figlarska, kennsluráðgjafi í Árborg, Hrund Harðardóttir, kennsluráðgjafi í Árborg og Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri hjá Sveitarfélaginu Árborg.

Frá námskeiðinum sem haldið var í Garðabæ. Mynd af heimasíðu Árborgar.

Fimmtudaginn 21. febrúar sl. var haldið námskeið í Garðabæ fyrir fjóra grunnskóla sem hafa tekið að sér að hefja innleiðingu á stöðumatinu. Þetta matstæki var hannað af þremur háskólum í Svíþjóð og Skolverket í kjölfar viðamikillar rannsóknar.  Þeir skólar sem ríða á vaðið eru Vallaskóli á Selfossi, Háaleitisskóli í Reykjanesbæ, Lækjarskóli í Hafnarfirði og Fellaskóli í Breiðholti. Fleiri tóku þátt í námskeiðinu, m.a. ráðgjafar frá Miðju máls og læsis í Reykjavík og fulltrúar frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þær Þórdís H. Ólafsdóttir og Annelie Hultgren, sem hefur mikla reynslu af kennslu fjöltyngdra barna í Rosengårdskolan í Malmö, kynntu og kenndu á stöðumatstækið og fjölluðu um kennslu í fjöltyngdum bekk. Þátttakendur létu vel af námskeiðinu og munu í kjölfarið leggja stöðumatið fyrir í sínum skólum. Þegar reynsla er komin á notkun þess og prófarkalestri lokið verða haldin fleiri námskeið og öllum skólum á landinu gefið tækifæri til að nýta hið nýja matstæki sem hefur tilfinnanlega vantað hér á landi.

Random Image

Nýjar fréttir