9.5 C
Selfoss

Fjöldi fólks á fundi landbúnaðarráðherra í Þingborg í gærkvöldi

Vinsælast

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boðaði til opins fundar í Þingborg í gærkvöldi til að ræða frumvarp um innflutning á ófrystu kjöti og stöðu landbúnaðarins almennt. Óhætt er að segja að fundurinn hafi verið vel sóttur af bændum og öðrum hagsmunaaðilum af Suðurlandi en um 250 manns sóttu fundinn.

Í upphafi fundar var lesin upp áskorun frá 42 félagasamtökum bænda þar sem kom fram að þau: „Leggjast alfarið gegn frumvarpi sem sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra kynnti þann 20. febrúar sl. og felur í sér heimild til þess að flytja inn hrátt, ófrosið kjöt og fersk egg. Verði frumvarpið að veruleika felur það í sér fullkomna uppgjöf í baráttu okkar Íslendinga fyrir því að verja lýðheilsu þjóðarinnar og íslenskra búfjárstofna sem hafa sérstöðu í alþjóðlegu samhengi,“ sagði meðal annars í áskorunninni, sem var svo afhent ráðherra.

Á fundinum rakti Kristján Þór m.a. sögu málsins og hvers vegna það væri á þeim stað sem það er statt nú. Þá fór hann yfir viðbrögð stjórnvalda í málinu og hvað framundan er. Í kjölfarið gafst fundarmönnum tækifæri á að spyrja ráðherra eða leggja til málanna. Kristján svaraði fundarmönnum og ræddi þær fyrirspurnir sem komu fram. Þá ítrekaði ráðherra að mikilvægt væri fyrir alla aðila að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri í samráðsgátt stjórnvalda, því það væri vettvangur allra Íslendinga til þess að hafa áhrif á þau mál sem flutt væru í þinginu. Jafnframt gaf hann það sterklega til kynna að hann væri opinn fyrir öllum góðum lausnum sem verða mættu til að greiða úr málinu með sem farsælustum hætti.

Á vef Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: „Ég er virkilega ánægður með kröftugan og málefnalegan fund. Mér finnst vera að skapast meiri skilningur á þeirri staðreynd að stjórnvöld þurfa að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er. Jafnframt að allir aðilar – hvort sem það eru bændur, stjórnvöld eða aðrir – sameinist í því verkefni að setja upp öflugar varnir til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Um leið þurfum við að sameina krafta okkar í því að draga fram óumdeilda kosti innlendrar matvælaframleiðslu umfram það sem innflutt er þannig að íslenskar vörur verði fyrsti kostur allra neytenda. Ég er sannfærður um að þetta mun takast.“

Kristján Þór mun á næstu dögum halda fleiri fundi um allt land og er fundardagskráin eftirfarandi:

  • Mánudagur 25. febrúar kl. 20:00     Félagsheimilið Þingborg, Hraungerðishreppi
  • Fimmtudagur 28. febrúar kl. 12:00     Þjóðminjasafnið, Reykjavík
  • Fimmtudagur 28. febrúar kl. 19:30     Félagsheimilið Hlíðarbær, Hörgársveit
  • Mánudagur 4. mars kl. 19:30     Hótel Hamar, Borgarnesi
  • Þriðjudagur 5. mars kl. 19:30    Hótel Valaskjálf, Egilsstöðum

Hér getur þú skilað inn umsögn um frumvarpið á SAMRÁÐSGÁTT STJÓRNVALDA. Umsagnarfrestur rennur út miðvikudaginn 6. mars nk.

Nýjar fréttir