-10.5 C
Selfoss

Góður fundur í Hveragerði um veggjöld

Vinsælast

Rafhjólaklúbburinn Skjaldbökurnar stóð fyrir opnum fundi í Hveragerði um veggjöld 7. febrúar sl. Fundurinn var ágætlega sóttur og fróðlegur um margt. Á pallborð voru Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason og Oddný G. Harðardóttir. Hanna Katrín Friðriksson ætlaði að koma en boðaði forföll á síðustu stundu. Allt eru þetta alþingismenn og Jón kjörinn þennan dag formaður umhverfis- og samgöngunefndar. Einnig var við pallborðið Eyþór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðis.

Rætt var vítt og breitt um veggjöld, stöðu samgangna á landinu og leiðir til úrbóta. Jón og Vilhjálmur voru og eru talsmenn veggjalda en þau Eygló og Eyþór vilja fara aðrar leiðir og velti Eyþór m.a. því fyrir sér hvort menn væru ekki komnir að þolmörkum varðandi skattheimtu?

Fram kom á fundinum að mörg dæmi séu til um skatta sem settir hefðu verið á tímabundið en áraturgum seinna væru þeir enn til staðar þó þeir kallist annað og var þar nefndur söluskattur sem breyttist í virðisaukaskatt og hafði á 70 ára tímabili farið úr 2% í 24,5% þegar hæst var. Var yfirferð Garðars Hannessonar, 84 ára Hvergerðings, ákaflega fróðlegt.

Segja má að niðurstaða fundarins hafi verið að ákaflega brýnt sé að ráðast í miklar úrbætur á samgöngumálum á öllum stigum, en ljóst var að fundarmenn voru ekki sammála um hvert sækja ætti það fjármagn. Mikil gagnrýni kom fram frá fundarmönnum að þinginu skyldi ekki hafa tekist að koma á komugjöldum, sem m.a. hefði verið hægt að nota til þessara verka. Nokkuð var rætt um nýorkubíla og kom þar fram að beðið væri eftir að þeim fjölgi meira svo hægt væri að taka ákvörðun um hverjar álögur á þeim yrðu. Í dag væri hvati fyrir fólk að breyta fyrir í nýorkubíla vegna lágra gjalda.

Fundi lauk skömmu fyrir kl. 22 og var það mál manna að fundurinn hafi verið gagnlegur en nauðsynlegt sé að frekari umræða fari fram um svo miklar breytingar sem veggjöld eru.

Nýjar fréttir