5.6 C
Selfoss

Lífshlaupið hófst í morgun

Vinsælast

Heilsu- og hvatningarverkefnið Lífshlaupið var ræst í morgun í tólfta sinn. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar og Garðar Svansson, formaður Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ ávörpuðu gesti og kepptu í skemmtilegri þraut í anda Skólahreystis sem Stefanía Bonnie Lúðvíksdóttir, íþróttakennari í Breiðholtsskóla stýrði af sinni miklu snilld.  Auk þess skoraði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra á Eyþór íþróttakennara Breiðagerðisskóla, en þar var verkefnið ræst, í armbeygjukeppni áður en hún keppti við Dóru Björt Guðjónsdóttur í hreystibrautinni. Mikið stuð við setninguna og myndbönd af gleðinni má sjá á Fésbókarsíðu Lífhlaupsins.

Nú er um að gera fyrir skóla og vinnustaði að skrá sig til leiks og skrá alla hreyfingu sína næstu þrjár vikurnar. Allt er betra en ekkert og allt telur með svo framarlega sem það nær að lágmarki 30 mínútum hjá fullorðnum og 60 mínútum hjá börnum skv. ráðleggingum Embætti landlæknis. Auðvelt er að skrá sig til leiks inn á Lífshlaupid.is.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til að gera hreyfingu að föstum lið í lífi sínu, hvort sem er í frítímanum, í vinnunni, í skólanum eða við val á ferðamáta.

Frá setningu Lífshlaupsins í Breiðagerðisskóla í morgun.

Lífshlaupið er góður vettvangur fyrir þá sem vilja byrja að hreyfa sig og skrá hreyfinguna markvisst, hafa yfirlit og setja sér markmið. Auk þess að hvetja til hreyfingar daglega skapar verkefnið skemmtilega stemningu á vinnustöðum og í skólum sem keppa sín á milli. Aðalmarkmiðið er að fá sem flesta til að hreyfa sig sem oftast á meðan á keppninni stendur. Fullorðnir að lámarki 30 mínútur á dag og börn og unglingar að lámarki 60 mínútur á dag. Frá upphafi hafa um 200 þúsund einstaklingar tekið þátt í Lífshlaupinu en árlega taka á bilinu 15-20 þúsund starfsmenn vinnustaða og nemendur í grunn- og framhaldsskólum þátt.

Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:
– Vinnustaðakeppni frá 6.–26. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur).
– Framhaldsskólakeppni frá 6.–19. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (tvær vikur).
– Grunnskólakeppni frá 6.–19. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur).
– Einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið.

Til þess að taka þátt í keppninni þarf að skrá sig til leiks á heimasíðu Lífshlaupsins, www.lifshlaupid.is og fara svo að skrá hreyfinguna.

Nýjar fréttir