5 C
Selfoss

Stjórnsýsluúttekt í Árborg kynnt

Vinsælast

Sveitarfélagið Árborg hélt íbúafund á Hótel Selfossi í gærkvöldi þar sem helstu niðurstöður úr úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum sveitarfélagsins voru kynntar. Fundinn sóttu um 70 manns.

Úttektina vann Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur en hann hefur skilað af sér 200 blaðsíðna skýrslu sem allir bæjarfulltrúar í Árborg hafa fengið. Á fundinum kom fram hjá Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra að skýrslan verði ekki birt opinberlega fyrr en eftir bæjarstjórnarfund 21. eða 28. febrúar nk.

Frá íbúafundi í Árborg þar sem úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum sveitarfélagsins var kynnt. Mynd: ÖG.

Á fundinum í gær fór Haraldur yfir ýmsar tölulegar upplýsingar m.a um framsetningu reikninga og rekstrarlega niðurstöðu sveitarfélagsins. Benti hann á að betra væri að aðskilja betur í ársreikningum rekstur er tengist A- og B-hluta í rekstri sveitarfélaga. Einnig fór hann yfir ýmsar upplýsingar er tengjast íbúafjölda, rekstri leikskóla og skóla. Þá sýndi hann samanburð á milli sveitarfélaga.

Haraldur fór einungis yfir lítið bort af skýrslunni en hún verður kynnt opinberlega eftir að bæjarfulltrúar hafa kynnt sér hana. Þess má geta að úttektin í Árborg var sú fjórtánda sem Haraldur gerir fyrir sveitarfélög. Með úttektinni fylgja 132 tillögur til útbóta í rekstri Sveitarfélagsins Árborgar sem Haraldur leggur fram.

Í máli Gísla Halldórs bæjarstjóra kom fram að sambærilegar skýrslur hafi leitt til mikils sparnaðar annars staðar og að mörg tækifæri felist í úttektinni til hagsbóta fyrir samfélagið. Haraldur hvatti til pólitískrar samstöðu um niðurstöðu skýrslunnar þannig að hún verði íbúum til heilla. Hann lagði jafnframt áherslu á að skýrslan væri fyrst og fremst til að skoða reksturinn og bæta hann.

Nýjar fréttir