1.7 C
Selfoss

Unnu bíl í jólahappdrætti Krabbameinsfélagsins

Vinsælast

Sonja Eyfjörð Skjaldardóttir á Selfossi, heppinn greiðandi miða í jólahappdrætti Krabbameinsfélagsins 2018, fékk nýlega afhentan nýjan sjálfskiptan Peugeot 3008 Allure, að andvirði um 4,5 milljóna króna. Þetta var einn af 286 skattfrjálsum vinningum í happdrættinu. Einnig má nefna að greiðendur miða í jólahappdrætti Krabbameinsfélagsins á Suðurlandi voru mjög heppnir í útdrættinum, en þeir voru um fjórðungur vinningshafa.

Sonja var ekki alveg á því að trúa þessu þegar hringt var í hana til að tilkynna henni um vinninginn. Hún og eiginmaður hennar voru á ferðalagi í útlöndum síðasta sumar og leigðu þar bíl. Svo skemmtilega vill til að bílaleigubíllinn var Peugeot 3008 og hjónin höfðu einmitt á orði í ferðinni hvað þau væru hrifin af þessum bíl. Þetta er í fyrsta skipti sem þau eignast nýjan bíl.

Tekjum af happdrætti Krabbameinsfélagsins hefur fyrst og fremst verið varið til fræðslu um krabbamein og krabbameinsvarnir, útgáfu fræðslurita og stuðnings við krabbameinssjúklinga. Stuðningur við happdrættið hefur gert félaginu kleift að halda uppi öflugu fræðslustarfi í þágu þjóðarinnar. Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins hefur umsjón með framkvæmd og rekstri happdrættis Krabbameinsfélagsins.

Nýjar fréttir