8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Kjúklingasúpa og fetabrauð

Kjúklingasúpa og fetabrauð

0
Kjúklingasúpa og fetabrauð
Ársæll Jónsson.

Takk fyrir áskorunina Tobbi minn. Þú veist að ég skorast ekki undan svona löguðu. Mig langar að gefa ykkur uppskrift af góðri kjúklingasúpu og brauði, sem við fjölskyldan eldum gjarnan þegar von er á góðum gestum.

Kjúklingasúpa:

4-5 kjúklingabringur
1 rauð paprika
1 græn paprika
2 gulrætur
1/2 blaðlaukur
4-5 hvítlauksgeirar
1 laukur
1 rautt chilli
2 msk. olía
1 dós saxaðir tómatar
1,5 -2 teningar kjúklingakraftur
2-3 tsk. karrý
2,5 ltr. vatn
1 peli rjómi
1/2- 3/4 krukka af Heinz chilli tómatsósu
150 gr. rjómaostur

Skerið grænmetið smátt niður, hitið olíu og steikið allt grænmetið í smá stund, rétt til að fá gljáa. Setjið svo grænmetið í pott og bætið við vatni, chilli tómatsósu, karrý, kjúklingakrafti, söxuðum tómötum og látið þetta malla meðan þið steikið kjúklinginn. Þegar kjúllinn er steiktur þá er honum bætt við í súpuna og látið malla í 10-15 mín. Að lokum er rjóma og rjómaosti bætt við og látið malla í að minnsta að kosti 30 mín. til viðbótar og jafnvel lengur, því lengur því betra. Með súpunni er svo gott að bera fram sýrðan rjóma, rifinn ost og Nachos-snakk. Svo er ómissandi að hafa brauðið góða með, einstaklega auðvelt og allir geta töfrað það fram.

Fetabrauð:

1/2 ltr. volgt vatn
1 pakki þurrger
600 gr. hveiti
1-2 tsk. salt
1 msk. sykur

Öllu blandað saman í skál og hrært örlítið, alls ekki of mikið. Plastfilma sett yfir og látið hefast í 8 klst. í ísskáp. Deigið er svo látið á bökunarpappír og jafnað út (á að vera blautt og klístrað). Yfir það er svo sett heil krukka af fetaosti (sigtið olíu vel frá) og vel af flögusalti. Bakið svo við 180 gráður í 40 mín.

Mig langar að skora á Óskar Loga Sigurðsson lífskúnstner frá Þorlákshöfn. Hann er ekki vanur að klikka þegar kemur að matseld og bakstri. Takk kærlega fyrir mig og verði ykkur að góðu.