2.3 C
Selfoss

Íþróttir fyrir alla í Rangárþingi eystra

Vinsælast

Í Rangárþingi eystra er lögð mikil áhersla á að allir íbúar geti stundað þá hreyfingu sem hentar hverjum og einum. Íþróttamiðstöðin á Hvolsvelli er vel útbúin tækjum fyrir allskonar íþróttir og hafa einstaklingar, starfsmannafélög og íþróttafélögin í sveitarfélaginu nýtt sér það vel. Líkamsrækt er á annarri hæð hússins svo að útsýnið af hlaupabrettinu er virkilega gott. Síðast en alls ekki síst má nefna sundlaugina en á Hvolsvelli er 25 m útisundlaug. Við hana eru heitir pottar, kaldur pottur, rennibraut og ný og endurbætt gufa. Prófað var að lengja opnunartíma íþróttamiðstöðvarinnar til 17:00 um helgar og hefur það gefist vel.

Í sveitarfélaginu er mikil áhersla lögð á að allir aldurshópar finni eitthvað við sitt hæfi. Íþróttaskóli er einu sinni í viku fyrir börn á aldrinum 4–6 ára undir handleiðslu íþróttakennara. Svokölluð samfella er milli Hvolsskóla og Íþróttafélagsins Dímonar en þar er lögð áhersla á að börnin geti stundað íþróttir yfir daginn, þ.e. áður en skóladeginum lýkur og gefur þar af leiðandi börnum úr dreifbýlinu meiri möguleika á að stunda þær íþróttir sem þau vilja. Eldri borgarar eiga líka sinn tíma í íþróttamiðstöðinni. Virka daga milli klukkan 11–14 geta íbúar í þessum aldursflokki, sem og öryrkjar, nýtt sér þjónustu íþróttamiðstöðvarinnar frítt. Svo geta þeir sem vilja klætt sig upp og spilað Folf en á svæðinu við íþróttamiðstöðina er 9 körfu folfvöllur. Hægt er að leigja diska til spilunar í íþróttamiðstöðinni.

Nýjar fréttir