9.5 C
Selfoss

Á yfirborðinu

Vinsælast

Þekking á þeim ferlum náttúru og umhverfis sem í gangi eru í venjulegum heimilisgarði, er alltaf til bóta. Aukinn skilningur leiðir til meiri útsjónarsemi við verklegar framkvæmdir og umhirðu.

Hjá sumum fer mikill tími í að kantskera og illgresishreinsa trjábeð á lóðarmörkum.. Að afloknum kantskurðinum getur mikil vinna verið eftir, ef gras hefur náð að vaxa inn í beðið. Sumir sjá fyrir því með því að bæta mold í beðið. Ég hef ekki tekið eftir að það hafi jákvæð áhrif.

Til að byrja með er annar litur á beðinu og allt lítur betur út. Runnategundir þola mis vel að bætt sé jarðvegi ofaná beðið, en með þeirri aðgerð aukast líkurnar á spírun og sprettu þeirra grasróta sem lenda undir nýju moldinni. Ég er á því að margir veldu sér annað verklag, ef þeir þekktu frekar áhrifaþættina og aðrar markvissari aðferðir.

Runnabeð ættu aldrei að vera mjórri en 100sm. Mjórri beð fyllast fljótt af grasi. Grastegundir á næstliggjandi grasflötum hafa gjarnan skriðular jarðrenglur. Þær vaxa inn í beðin. Grastegundin skiptir því máli. Ekki er víst að sama grastegund sé ríkjandi í grasflötinni og var í þökunum þegar þær voru lagðar. Sáðskiptin ráðast nokkuð af bæði umhirðu og aðstæðum fyrstu árin eftir sáningu eða þökulagningu. Kantskurður beðanna þarf að ná niður fyrir neðstu rætur grassins í flötinni. Fullnægjandi dýpt er mis mikil eftir grastegundinni í flötinni. Sumir skera kantana einu sinni á ári, en mitt mat er að það þurfi að gera oftar.

Sandur er bergefni og gjarnan notaður sem yfirborðsefni í trjábeð. Miklar þurk og -hitasveiflur geta orðið í bergefnum, sem veldur því að spírur fræja þorna frekar en í rakaheldnari jarðvegi og drepast. Það er algengara í grófum sandi en fínum. Sandur er því oft notaður sem um 10-15sm þykkt yfirborðsefni í beð. Sandur sem unninn hefur verið í mulningsvélum þar sem steinar eru brotnir eða muldir niður í salla er oft kallaður hellusandur, inniheldur grjótsalla og/eða flísar sem geta sært börk trjágróðurs niður við jörð að vetrinum vegna áhrifa frosts og þýðu.

Góður jarðvegsdúkur hleypir lofti og vatni í gegnum sig en ekki rótum. Ef brot kemst á dúkinn við meðhöndlun, losnar um trefjarnar á þeim litla bletti(5x5mm), en ræturnar finna hann strax. Jarðvegsdúkur hefur hvorki áhrif á spírun fræja í yfirborðsefninu né vöxt plantna sem þar vaxa. Hann tefur aðeins vöxt róta sem fyrir eru neðar en hann sjálfur. Dúknum er aðeins ætlað að tefja vöxt þeirra plantna á meðan þær eru að drepast úr ljósleysi. Yfirborðsefnið ofaná jarðvegsdúk, þarf því að vera nógu þykkt til að geta komið í veg fyrir að spírur og rætur undir dúknum nái í ljós.

Nýjar fréttir