-5 C
Selfoss

Íþróttir og iðjuþjálfun í leikskólanum Krakkaborg

Vinsælast

Dagleg hreyfing er nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt og þroska barna sem og andlega vellíðan. Hreyfing ýtir m.a. undir sköpunarkraft, framkallar gleði og vellíðan, styrkir sjálfsmyndina og eflir hreyfiþroska. Í aðalnámskrá fyrir leikskóla segir: „Í leikskóla eiga börn að læra um og tileinka sér heilbrigða lífshætti, hollt mataræði, hvíld, hreinlæti og hreyfingu. Hreyfing er börnum eðlislæg og stuðlar að vellíðan. Hreyfing getur haft í för með sér gleði og ánægju og í gegnum hana læra börn. Börn eiga að fá tækifæri til að hreyfa sig frjálst jafnframt því að taka þátt í skipulagðri hreyfingu. Hreyfing og vellíðan hafa jákvæð áhrif á samskipti barna, umgengni þeirra við umhverfi sitt og hæfni þeirra til að takast á við daglegt líf og nýjar aðstæður.

Í leikskólanum Krakkaborg í Flóahreppi búum við svo vel að hafa aðgang að vel útbúnum íþróttasal, krefjandi útisvæði og umhverfi sem gerir okkur kleyft að hlúa sérstaklega vel að grófhreyfiþroska nemendahópsins. Lögð er rík áhersla á að allir nemendur leikskólans fái markvissa alhliða hreyfingu, hvort sem er í gegnum frjálsan leik, útiveru eða í skipulögðum íþróttatímum. Allir nemendur leikskólans fara í íþróttir a.m.k. einu sinni í viku í u.þ.b. klukkustund í senn. Íþróttastundirnar eru skipulagðar þannig að í upphafi setjumst við niður klæðum okkur úr sokkum og peysum, förum yfir skipulag dagsins, fræðumst um líkamann, heilbrigði og heilsu og hitum okkur svo upp með ýmsum æfingum og leikjum. Í aðalþætti hreyfistundarinnar prófum við og kynnumst hinum ýmsu íþróttagreinum, förum í alls kyns leiki, gerum æfingar með hin ýmsu áhöld (baunapoka, sippubönd, húllahringi, bolta, sápukúlur og fleira), förum í þrautabrautir sem reyna á jafnvægi, hugrekki, samhæfingu, styrk, þol, útsjónarsemi, rýmisgreind o.fl., gerum stöðvahringi, dönsum og umfram allt höfum alveg rosalega skemmtilegt. Í lok tímans hjálpast allir að við að ganga frá. Við setjumst niður, spjöllum saman, slökum á og syngjum svo „Takk fyrir tímann“ lagið okkar áður en við klæðum okkur í og höldum til baka í leikskólann.

Viðfangsefni hvers íþróttatíma eru útfærð miðað við getu og þroska nemendanna. Iðjuþjálfi stendur vörð um að allir fái að njóta sín á sínum forsendum og hverjum og einum nemanda er mætt þar sem hann er staddur. Reynt er að koma inn á sem flesta þroskaþætti með leikjum og æfingum en númer eitt tvö og þrjú er að öllum líði vel í íþróttatímanum, hafi gaman af og njóti þess að hreyfa sig. Jákvæð reynsla barna af hreyfingu eykur nefnilega líkurnar á því að þau temji sér heilbrigða lífshætti á fullorðinsárum sem fela í sér hreyfingu.

Haustið 2018 tók til starfa iðjuþjálfi í leikskólanum Krakkaborg. Ekki hefur verið starfandi iðjuþjálfi í leikskólanum áður og því er starfið í sífelldri þróun.

Iðjuþjálfun tengist námsþáttum í Aðalnámsskrá leikskóla á ýmsa vegu, m.a. er tenging við þá þætti sem hér eru nefndir.

Læsi

Í iðjuþjálfun fá nemendur ýmis tækifæri til að læra efla læsi sitt, sama hvers kyns læsi er um að ræða. Á elstu deild er lögð áherlsa á málnotkun og merkingu orða, hljóðkerfisvitund, ritun, lestur, samskiptaform og virka þátttöku, ýmist með beinni kennslu, leikjum, spilum, verkefnum og samskiptum við kennara og aðra nemendur.  Hjá yngri nemendum er áherslan svipuð en minna er um beina kennslu og meira um kennslu í gegnum leik, hlutverkaleiki, verkefni, spil og margt fleira. Á yngstu deild er aðaláherslan lögð á samskiptaform og virka þátttöku í gegnum leik.

Lýðræði og mannréttindi / Jafnrétti

Í iðjuþjálfun er áhugi nemenda notaður til að velja viðfangsefni hverju sinni og styrkleikar hvers og eins nýttir til að vinna með veikleika þeirra. Nemendur fá einnig tækifæri til að þjálfa sig í að taka sameiginlegar ákvarðanir um mál sem varða þau, t.d. um hvaða leik eigi að fara í í lok íþróttatímans, hvaða dans skuli dansa í danstímanum, hvort þjálfunin þann daginn skuli fara fram innan- eða utanhúss o.s.frv. Þau læra einnig að hver og einn hefur rétt á að taka þátt á sínum eigin forsendum og þó svo að einhver þurfi aðlaganir á umhverfi eða verkefnum er það ekki síður mikilvæg þátttaka.

Heilbrigði og velferð

Í salartíma hjá iðjuþjálfa fá nemendur markvisst hreyfiuppeldi þar sem unnið er að því að efla hreyfiþroska nemenda í gengum leik og þjálfun. Einnig er unnið markvisst að því að efla trú þeirra á eigin getu, færni þeirra í samskiptum sem og einbeitingu og úthald. Í hverjum tíma er einnig fræðsla um líkamann, mikilvægi hreyfingar og hollrar næringar.

Sköpun

Í iðjuþjálfun er ýtt undir sköpunargleði nemandanna með ýmsum hætti. Þar má m.a. nefna leiki og dans í íþróttasalnum, leik með leir og perlur í þjálfunarstundum, ritunarverkefni í skólahóp, þjálfun í beitingu skæra í hópþjálfunarstundum og svona mætti lengi telja.

Í tilefni af Degi leikskólans sem haldinn er hátíðlegur um land allt þann 6. febrúar viljum við bjóða áhugasömum að koma í heimsókn til okkar á opið hús kl. 15:00–16:00 6. febrúar og taka þátt í eða fylgjast með leikjum og ýmsum útiverkum á Enginu okkar, fá hressingu við eldstæðið okkar og skoða fallega leikskólann okkar.

Bestu kveðjur, nemendur og starfsfólk Krakkaborgar

Nýjar fréttir