2.8 C
Selfoss

Foreldramorgnar í Selfosskirkju

Vinsælast

Á miðvikudagsmorgnum kl. 11:00 – 12:30 eru foreldramorgnar í Selfosskirkju. Foreldramorgnar eru hugsaðir sem opið hús fyrir foreldra ungra barna. Þarna gefst tækifæri til að hittast og spjalla saman í notalegu umhverfi.

Fastir liðir eru fræðsluerindi frá hjúkrunarfræðingum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og eru þau erindi alltaf vel sótt. Í haust voru fyrirlestrar um “Tengslamyndun og tákn ungbarna”,  “Næringu ungbarna” og nú í janúar fræðsla um “Svefn og svefnvanda ungbarna”.

Á haustönninni höfum við einnig fengið fleiri góðar heimsóknir. Í september kom Gunna Stella heilsumarkþjálfi og fræddi hópinn um Frumnæringu, í október kom Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri og hélt fyrirlesturinn: “Að láta drauma sína og markmið rætast”. Í nóvember kom Svanhildur Inga Ólafsdóttir, fjölskyldufræðingur hjá Velferð og fræddi hópinn um Samskipti. Í desember fengum við heimsókn frá Bókasafninu á Selfossi þar sem kynntar voru nokkrar bækur úr jólabókaflóðinu ásamt kynningu á góðum og gagnlegum fræðlsubókum fyrir foreldra ungra barna.

Síðasta miðvikudaginn í hverjum mánuði eru rúnstykki á boðstólum í boði Guðna bakara en það frábæra samstarf hefur verið í gangi síðastliðin þrjú ár. Ekki má gleyma vöfflukaffinu vinsæla og Pálínuboði sem eflaust verða aftur á dagskrá fljótlega.

Foreldarmorgnar eru tilvalin leið til að kynnast nýju fólki með börn á svipuðum aldri og eru því mæður jafnt sem feður hvött til að mæta. Foreldramorgnar eru með hóp á Facebook Foreldramorgnar í Selfosskirkju sem nýbakaðir foreldra eru hvattir til að skrá sig í.

Eigum saman góða stund á baðstofuloftinu yfir kaffibolla.

Ef þú hefur hugmynd að kynningu eða efni sem á við hópinn sem sækir foreldramorgna, þá máttu gjarnan hafa samband í gegnum netfangið aesko@selfosskirkja.is

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,

æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju.

Nýjar fréttir