-1.6 C
Selfoss

Brúnastaðasystkinin 1000 ára gömul

Vinsælast

Samanlagður aldur fimmtán systkina frá Brúnastöðum í Hraungerðishreppi hinum forna nær nú eitt þúsund árum. Einn af tólf bræðrum er látinn, Gísli sem var fjórði í aldursröðinni. Hann lést 2006 og átti að baki tæplega sextíu og eitt lífár. Foreldrar systkinanna, Ágúst Þorvaldsson og Ingveldur Ástgeirsdóttir, voru kunn hér í héraði. Hann var landskunnur alþingismaður á sínum tíma. Ágúst var fæddur á Eyrarbakka 1907 og lést 1986. Ingveldur var fædd á Syðri-Hömrum í Ásahreppi 1920 og lést 1989. Þau bjuggu að Brúnastöðum.

Systkinin fögnuðu þúsund ára afmælinu á dögunum í Betri-Stofunni á Hótel Selfossi með góðri veislu. Afkomendur Brúnastaðahjónanna telja í heildina 146 manns þar af eru 91 karl og 46 konur. Systkinin og makar þeirra gerðu sér margt til skemmtunar og rifjuðu upp æskuna á Brúnastöðum en öll fæddust þau heima undir öruggum ljósmóðurhöndum ömmu sinnar Arndísar Þorsteinsdóttur á Syðri-Hömrum í Ásahreppi nema Jóhann sem er yngstur. Hann fæddist á Sjúkrahúsinu á Selfossi 1963. Foreldrum sínum til heiðurs flutti Guðni Ágústsson m.a. eftirfarandi ljóð eftir Magnús Gunnar Sigurjónsson á Stokkseyri sem hann flutti þeim Brúnastaðahjónum þegar þau voru heiðursgestir Stokkseyringa fyrir 35 árum.

Heill sé þér höfðingi
Hraungerðinga.
Velkominn vertu
vina á fund.
(Fagna þér frændur
Fornrar ættar)
Brattsholts frá Bergi
bornir niðjar.

Fagnar þér fremur
Flóinn allur
mögur sinn man
af manna þingum.
Stóð um þig styr
og sterkir vindar
Skóku þitt skip
við skarpann leik.

Muna má þig
mæla á þingum
fyrir framtíðum
fagurra sveita
tæpi tunga
töluð var ei
en hátt í heiðríkju
háleitra tóna
gafst þú æ gætur
að gróandans þörf.

Bóndi er bústólpi
bú er landstólpi
meitlað var minstur
í mál þitt og gerð.
Heill sé þér höfðingi
Hraungerðinga
virtur af verkum
hjá vorri þjóð.

Þá skal og Ingveldi
Ástgeirsdóttur
árnaðaróskir
af alhug færðar.
Sunnlenskum sveitum
sómi er að
samhentum slíkum
sæmdarhjónum.

Systkinin þakka vinsemd og kveðjur sem þeim hafa borist af tilefni afmælisins.

 

 

 

 

Nýjar fréttir