11.7 C
Selfoss
Home Fréttir Ferðamaðurinn og íslenska gestrisnin

Ferðamaðurinn og íslenska gestrisnin

0
Ferðamaðurinn og íslenska gestrisnin
Þórir N. Kjartansson fyrrv. framkvæmdastjóri Víkurprjóns í Vík.

,,Ég er mjög hræddur um  að Íslendingar fari að missa það orðspor að vera gestrisin þjóð“,sagði gamall reynslubolti í ferðaþjónustu og atvinnulífi í sjónvarpsviðtali fyrir nokkru. Þessi orð eru mér mjög hugstæð vegna þess að þetta er nákvæmlega sú tilfinning sem ég hef.
Því miður finnur maður fyrir því að sumt fólk er farið að láta ferðamannastrauminn fara í taugarnar á sér.  Jafnvel fólk sem hefur sitt lifibrauð af túristanum.  Einnig fólk  sem lifir í þeim samfélögum sem eiga allt undir  þessari atvinnugrein.  Segja má að allt svæðið frá Markarfljóti að Höfn standi og falli með þjónustu við ferðamanninn.  Dragist að ráði saman í þessu mun að sama skapi fjara undan þeim byggðarlögum sem eru á öllu þessu víðfeðma svæði.  Það er ákveðin skoðun mín að til að tryggja jákvæða upplifun ferðamannsins og þar með líkindi til að hann mæli með því við aðra að ferðast til Íslands þurfum við að fara varlega í ýmsu sem kann að virka fráhrindandi fyrir gestina okkar. Svolítið umburðarlyndi kostar ekkert.  Maður heyrir æ fleiri sögur af sjálfskipuðum ,,löggum“, sem í skjóli einhverra óljósra reglna, eru að skipta sér af því, ef einhver leggur húsbíl eða öðrum faratækjum,  annarsstaðar en á merktum tjaldsvæðum.  Viljum við framfylgja því út í ystu æsar leggur það okkur þær skyldur á herðar að hafa opin tjaldsvæði allt árið um kring.  Sumir vilja vera einir og út af fyrir sig, meðan lang flestir velja tjaldstæðin, sem eru vel sótt og þurfa ekki að láta reka fólk til sín.  Vinur minn, þýskur, var að koma til Íslands í sumar í þrítugasta og annað skipti.  Hann elskar landið og frelsið sem honum hefur fundist ríkja hér. En hann er einn af þeim sem ekki vill vera í fjölmenninu á tjaldsvæðunum heldur finna sér rólegan afskekktan stað og sofa þar í Land-Rovernum sínum.  En nú var honum brugðið:  Í fyrsta sinn hafði hann lent í því  að einhverjir vegfarendur eða heimamenn höfðu komið og rekið hann í burtu af fyrirhuguðum næturstað.  Hann var mjög sleginn og fannst hann finna fyrir því að vera ekki lengur velkominn á Íslandi.  Bannskilti af ýmsum gerðum spretta upp og eru heldur ekki aðlaðandi. Það væri vel hægt að hafa þau frekar í formi leiðbeininga en boða og banna og myndu þannig hafa mun jákvæðari áhrif. Það verður alltaf til eitthvert eitt prósent af fjöldanum sem ekki kann mannasiði og munu aldrei geta lært þá. Við megum ekki setja alla undir sama hatt og miða gerðir okkar við þann þrönga hóp sem aldrei mun hvort sem er virða einhverjar reglur. Að maður tali nú ekki um alla ,,kúkaumræðuna“ sem er svo yfirdrifin að sveitarstjórnafólk á Suðurlandi sá sig knúið til að setja þessa ,,dásamlegu“ málsgrein inn í  lögreglusamþykktir svæðisins.

  ,,Ekki má ganga örna sinna eða kasta af sér þvagi á almannafæri eða á lóð, land eða híbýli annars manns. Hver sem það gerir skal hreinsa upp eftir sig“ Ísland er líka dýrt land og þess vegna finnst mér mjög varasöm þróun sem lýsir sér í því að hvar sem á að stoppa til að skoða náttúruperlu eða fara á WC eru að spretta upp rukkunarhlið og skúrar.  Ekkert við það að athuga þó greiða þurfi fyrir klósett þar sem engin önnur þjónusta er. En er þörf á því fyrir stórfyrirtæki sem raka saman milljónum á dag frá ferðamanninum að tíma ekki að hleypa fólki á klósettið af hræðslu við að það versli ekki neitt?   Að hvergi megi stoppa án þess að vera neyddur til að borga einhverja hundraðkalla hlýtur líka að virka fráhrindandi. Og eru þessir hundraðkallar þess virði að missa kannski viðskiptavildina sem menn hafa haft?  Sumir vinir mínir eru á annarri skoðun og segja gjarna ,,en þetta er svona í öðrum löndum“.  En þá má spyrja á móti af hverju Ísland er svona vinsælt af útlendum ferðamönnum?  Vitað er  að íslenska náttúran hefur mikið aðdráttarafl en getur ekki verið að hluti af upplifuninni sé það, að fólkinu finnist það vera ögn frjálsara hér en þar sem allir verða að haga sér eins og sauðkind í rétt?  Gæti ekki stefnt í það að hér færu menn að hirða aurinn og henda krónunni?   Viðskipti haldast nefninlega aldrei til lengdar nema bæði seljandinn og viðskiptavinurinn séu ánægðir.