Íbúum Rangárþings eystra fjölgað um yfir 100 á einu ári

Byggingaframkvæmdir við Gunnarsgerði. Mynd: ÁLK.
Byggingaframkvæmdir við Gunnarsgerði. Mynd: ÁLK.

Árið 2018 var ár uppbyggingar og fólksfjölgunar í Rangárþingi eystra sem er virkilega jákvætt fyrir sveitarfélagið. Gríðarleg eftirspurn er eftir lóðum í þéttbýlinu og skipulagsyfirvöld sveitarfélagsins eru strax farin að huga að næsta skrefi í stækkun Hvolsvallar. Vel gengur að byggja við nýju götuna Gunnarsgerði og nú þegar hafa fyrstu íbúarnir flutt inn í raðhús sem að Sláturfélag Suðurlands byggði fyrir starfsfólk sitt. SS og Rangárþing eystra, sömdu í byrjun árs 2017, um byggingu 24 lítilla raðhúsa á Hvolsvelli. Nú þegar er byrjað á næsta raðhúsi á svokölluðu Sýslumannstúni svo að verkefnið gengur vel. Það helst að sjálfsögðu í hendur að þegar mikið er byggt þá fjölgar íbúum. Þann 1. janúar 2018 voru íbúar í Rangárþingi eystra um 1.800 talsins en nú í byrjun árs 2019 þá er fjöldi íbúa um 1.920 talsins. Þetta er því fjölgun um rúmlega 100 íbúa á einu ári og erum við virkilega ánægð með þessa þróun. Skipulag lóða er mjög mikilvægt en nú er einnig verið að vinna að miðbæjarskipulagi fyrir Hvolsvöll sem mun breyta ásýnd og aðkomu að þéttbýlinu og vonandi gera miðbæjarsvæðið að ákjósanlegum viðkomustað fyrir gesti en einnig svæði sem íbúar geta nýtt sér og verið ánægð með.