2.7 C
Selfoss

Góðgerðardagur Grunnskólans í Hveragerði

Vinsælast

Góðgerðardagur Grunnskólans í Hveragerði verður haldinn í dag. Dagurinn hefst með gangasöng kl. 9:15 þar sem góðkunnir tónlistarmenn úr starfsliði skólans syngja og spila jólalög að hætti hússins. Kaffihús í mötuneyti skólans, þar sem gestir og gangandi geta fengið sér morgunkaffi og með því, opnar kl. 9:15. Markaðstorg opnar kl. 9:30, leikjastöðvar, lukkuhjól og fleira skemmtilegt í boði. Dagskrá góðgerðardagsins lýkur kl. 11:30. Enginn posi verður á staðnum.

Nemendur kusu um hvaða málefni skuli styrkt og varð Birta landssamtök, fyrir valinu. Tilgangur samtakanna og markmið er að standa fyrir fræðslu og ýmsum viðburðum á landsvísu, fyrir syrgjandi foreldra og fjölskyldur þeirra. Samtökin standa einnig fyrir árlegum hvíldardögum fyrir foreldra/forráðamenn með endurnærandi hvíld að leiðarljósi.

Þetta er fjórða árið sem nemendur skólans vinna að góðgerðarmálum með þessum hætti. Fyrri styrkþegar eru: Amnesty International, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og árið 2017 hlaut Barnaspítali Hringsins ágóðann.

Fjölmörg fyrirtæki standa að baki Góðgerðardeginum og verður þeim gerð skil í næstu frétt, þegar sagt verður frá afrakstrinum og afhendingu fjárins.

Nýjar fréttir