2.3 C
Selfoss

Skátstarfið er fjölbreytt barna- og unglingastarf

Vinsælast

Skátastarfið hjá Fossbúum er hafið og fer vel af stað. Um miðja október héldu skátarnir sína árlegu kvöldvöku í Sunnulækjarskóla og buðu þangað m.a. skátum frá Sólheimum.

Í nóvember var mikið að gera. Fálkaskátar Árbúa í Reykjavík buðu fálkaskátum í Fossbúum í heimsókn og gistingu yfir nótt. Fálkaskátarnir héldu kvöldvöku í skátaheimili Árbúa þar sem allir lögðu sitt af mörkum. Daginn eftir tóku þeir svo þátt í Fálkaskátadeginum sem haldinn var á Áftanesi.

Stærsti viðburður félagsins er félagsútilegan á Úlfljótsvatni sem er haldin í byrjun nóvember á hverju ári og er jafnan fjölmenn. Þar sjá foreldrar m.a. um eldamennskuna og að koma þeim yngstu í ró á kvöldin. Þemað í ár var tímaflakk og tók öll dagskrá mið af því. Á laugardagskvöldinu er svo fjölskyldum skátanna boðið á kvöldvöku og er vandfundið meira fjör en þar myndast.

Um miðjan nóvember gáfu Fossbúar gestum og gangandi kakó þegar kveikt er á jólaljósunum á Selfossi.

Í desember fá nýir fálkaskátar langþráðan skátaklút og um leið eru afhent fálkamerki sem skátarnir bera á klútum sínum.

Skátstarfið er fjölbreytt barna- og unglingastarf sem hefur það að markmiði er að byggja upp sterka og sjálfstæða einstaklinga sem eru vel í stakk búnir til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

Fossbúar bjóða upp á skátastarf fyrir alla 10 ára og eldri. Kynjaskipt er í sveitum 10–12 ára en blandaðir hópar eftir það. Skátarnir hittast á klukkustundalöngum fundum einu sinni í viku.

Ef einhverjir vilja slást í hópinn er best að hafa samband í gegnum facebooksíðu félagsins eða senda póst á fossbuar@gmail.com.

Nýjar fréttir