7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Fullveldishátíðinni víða fagnað með viðburðum á Suðurlandi

Fullveldishátíðinni víða fagnað með viðburðum á Suðurlandi

0
Fullveldishátíðinni víða fagnað með viðburðum á Suðurlandi

Ríkisstjórn Íslands efnir til fullveldishátíðar í tilefni þess að 100 ár eru liðin síðan Ísland öðlaðist fullveldi. Fjölbreyttir viðburðir ætlaðir almenningi verða í helstu menningarstofnunum þjóðarinnar auk þess sem boðið verður til veislu víða um landið. Á Suðurlandi eru ýmsir viðburðir tengdir fullveldishátíðinni sem hægt er að sækja. Hér að neðan gefur að líta einhverja þeirra.

100 ára fullveldi í hugum barna er yfirskrift sýningar á verkum nemenda Grunnskólans í Hveragerði. Sýningin var opnuð föstudaginn 16. nóvember sl. á Bókasafninu í Hveragerði og Listasafni Árnesinga. Laugardaginn 1. des. frá kl. 14-16 verður afhending viðurkenninga sem hluti af menningardagskrá barna í Listasafni Árnesinga. Sýningin verður opin út árið.

Halldór Einarsson í ljósi samtímans er myndlistarsýning í Listasafni Árnesinga. Sýningin er á verkum Halldórs auk fjögurra annarra listamanna; Anna Hallin (1965), Birgir Snæbjörn Birgisson (1966), Guðjón Ketilsson (1956) og Rósa Sigrún Jónsdóttir (1962). Sýningin er opin til 16. desember.

Þingvellir, friðun og fullveldi. Á fullveldisdaginn verður ókeypis inn á nýja sýningu í gestastofu þjóðgarðsins á Þingvöllum. Gestum gefst færi á að spyrja starfsfólk út í sýninguna og Þingvelli. Klukkan 11 verða afhjúpuð fræðsluskilti á nýju sýningunni sem lýsa hvernig friðunarhugmyndir Þingvalla mótast um líkt leyti og Ísland verður fullvalda þjóð 1918. Klukkan 14 er hátíðarguðsþjónusta í Þingvallakirkju og mun sr. Kristján Valur Ingólfsson þjóna fyrir altari.  Organisti er Guðmundur Vilhjálmsson.

Fullveldi í kjölfar Kötlugoss verður haldin á Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri. Kl. 11:00 munu nemendur Tónlistarskóla Skaftárhrepps flytja tónlist. Frumsýnd stuttmynd um Kötlugos og önnur gos. Opnuð vefsíða um Kötlugos, Katla100.is  Guðrún Gísladóttir, prófessor í landafræði við HÍ segir frá Kötlugosinu 1918. Zbigniew and Teresa Zuchowicz flytja tónlist. Veitingar í Kirkjubæjarskóla í boði Skaftárhrepps. Kl. 12:00 -14:00 Sögusýning sem nemendur Kirkjubæjarskóla hafa sett upp. Þar á meðal er annáll frá árinu 1918, fróðleikur um frostaveturinn mikla, Kötlugos, spænsku veikina, Fullveldi Íslands og fleira.

Menningardagskrá barna 1. desember 2018 Um árabil hafa Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga í Hveragerði efnt til menningardagskrár að kvöldi fullveldisdagsins 1. desember, þar sem myndlist, orðlist og tónlist er teflt saman eina kvöldstund. Í tilefni 100 ára afmælis fullveldisdagsins sem árið 2018 ber upp á laugardag verður efnt til menningardagskrár með börnum og fyrir börn um miðjan dag og Grunnskólinn í Hveragerði bætist við sem samstarfsaðili. Efnt verður til ritunarsamkeppni og samkeppni í myndmennt út frá fullveldishugtakinu innan skólans á haustmisseri. Óháðar dómnefndir verða fengnar til að velja nokkur verk sem verða verðlaunuð út frá mismunandi forsendum til þess að leggja áherslu á fjölbreytta nálgun viðfangsefnisins. Úrval myndverka verður til sýnis í Listasafni Árnesinga og úrval ritverka í Bókasafninu frá og með 16. nóvember og út árið. Á Menningardagskrá barna – 1. des. 2018 verða niðurstöður dómnefnda kynntar og viðurkenningar veittar. Þá munu börn kynna og lesa úr nokkrum völdum ritverkum og kynna nokkur valin myndverk. Tónlistarflutningur á menningardagskránni 1. des. verður í höndum barna sem stunda nám við Tónlistarskóla Árnesinga. Um leið og aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands er minnst gefst börnunum tækifæri til að setja fullveldishugtakið í mismunandi samhengi og tengja nútímanum – og börnum og fjölskyldum þeirra, ásamt öðrum íbúum svæðisins, gefst kostur á að eiga samverustund sem auðgar andann með áhugaverðri dagskrá.

Fjallkonurnar okkarViðburðurinn Fjallkonurnar okkar verður haldinn í Versölum, ráðhúsi Ölfuss laugardaginn 1. desember kl. 15:30 í tilefni 100 ára afmælis Fullveldisins Íslands. Nokkrar af þeim sem hafa verið fjallkonur í Þorlákshöfn á 17. júní í gegnum tíðina koma og flytja það ljóð sem þær fluttu þegar þær voru fjallkonur.
Samhliða þessum viðburði verður ljósmyndasýning um fjallkonur opnuð í Galleríinu undir stiganum á Bæjarbókasafni Ölfuss. Allir velkomnir! Kaffi og smákökur í boði.Viðburðurinn er unnin í samstarfi við Kvenfélag Þorlákshafnar. Kvenfélagið hefur séð um að tilnefna fjallkonuna á ári hverju og félagið á skautbúninginn sem fjallkonurnar klæðast.

Hátíðartónleikar í Skálholtsdómkirkju 100 ára fullveld Hátíðartónleikar í Skálholtsdómkirkju í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslendinga og upphafs aðventu.Flutt verður fjölbreytta tónlist sem tengist á einhvern hátt tilefninu og kemur tónleikagestum einnig í rétta stemmningu fyrir komandi aðventu og jól svo ekki sé minnst á þessi merku tímamót okkar Íslendinga. Fram koma Kirkjukórar Breiðabólstaðarprestakalls ásamt söngfólki úr Landeyjum, Kirkjukórar Stóra-Núps og Ólafsvallakirkna, Skálholtskórinn, Karlakór Selfoss og Öðlingarnir. Kórarnir mynda hátt í 100 manna blandaðan kór og einnig 100 manna karlakór. Einsöngvari á tónleikunum er Oddur Arnþór Jónsson bassi. Jóhann I. Stefánsson leikur á trompet og Matthías Nardeau leikur á Óbó. Orgel og píanó meðleik annast Jón Bjarnason og Guðjón Halldór Óskarsson. Sr. Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti flytur ávarp og stjórnendur eru Guðjón Halldór Óskarsson, Jón Bjarnason og Þorbjörg Jóhannsdóttir.
Tónleikarnir hefjast klukkan 16:00
Miðaverð 2500 krónur
frítt fyrir börn yngri en 12 ára
öryrkja og eldri borgara.