4.9 C
Selfoss

Jólauppestur í Bókakaffinu í kvöld

Vinsælast

Fyrsta jólaupplestrarkvöld Bókakaffisins á Selfossi verður í kvöld fimmtudaginn 22. nóvember. Samkoman hefst með stuttri dagskrá um bókina Kambsmálið eftir Jón Hjartarson fyrrverandi fræðslustjóra. Í bókinni segir frá atburðum sem urðu á bænum Kambi í Árneshreppi árið 1953 þegar til stóð að sundra fátækri fjölskyldu í kjölfar andláts bóndans. Auk höfundarins koma að dagskránni heimildamenn hans, heimasæturnar á Kambi sem nú eru við aldur en voru aðeins unglingar þegar þær stóðu upp og ráku af höndum sér aldagamlar venjur sem ríktu við ráðstöfun fátæklinga. Hinar öldnu Kambssystur hafa eins og bókarheitið ber með sér engu gleymt og geyma með sér dýrmætan baráttuanda sem er vegvísir og fyrirmynd komandi tímum.

Eftir upplestur, fyrirspurnir og umræður um Kambsmálið lesa þrír höfundar úr verkum sínum.

Lilja Magnúsdóttir les úr bókinni Svikarinn sem ástarsaga og saga úr íslenskum samtíma.

Gunnar Sæmundsson frá Hrútatungu les úr sjálfsævisögu sinni, Genginn ævivegur en Gunnar var lengi í forystusveit bænda og kom að margvíslegum félagsmálum í heimahéraði og á landsvísu.

Bjarni Harðarson les úr 18. aldar skáldsögunni Í Gullhreppum þar sem segir frá Skálholtsstól og þjóðsagnapersónunni Þórði í Reykjadal.

Að vanda er Bókakaffið opnað kl. 20 svo gestir geti fengið sér sæti og sýnt af sér kæti. Klukkan 20:30 hefst formleg dagskrá og stendur í klukkustund. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Kakó og kaffi á tilboðsverði.

Nýjar fréttir