5 C
Selfoss
Home Fréttir Gjaldfrjálsar skólamáltíðir í Bláskógabyggð

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir í Bláskógabyggð

0
Gjaldfrjálsar skólamáltíðir í Bláskógabyggð

Þessa dagana eru verkalýðsfélög að undirbúa kröfugerðir sínar með hag sinna félagmanna fyrir brjósti. Markmiðið er að kjör félagsmanna verði betri og hagstæðari eftir kjarasamninga en fyrir. Á sama tíma og verkalýðshreyfingin er að leggja fram sínar launakröfur samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar samhljóða tillögu T-listans að frá og með næstu áramótum verði skólamáltíðir fyrir leik- og grunnskólanemendur í Bláskógabyggð með öllu gjaldfrjálsar. Ljóst er að þessi ákvörðun sveitarstjórnar mun verða til hagsbóta fyrir bæði nemendur og foreldra/forráðamenn leik- og grunnskólanema í sveitarfélaginu, börnin fá holla næringu og ráðstöfunartekjur heimilana aukast umtalsvert.

Með ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar verður öllum skólabörnum í sveitarfélaginu tryggður aðgangur að næringarríkum mat á skólatíma. Það eru réttindi allra skólabarna að geta notið hollrar og góðrar fæðu óháð efnahag foreldra og forráðamanna. Þessi ákvörðun sveitarstjórnar mun kosta sveitarfélagið um fimmtán milljónir króna á ársgrundvelli. Í Bláskógabyggð er um 190 nemendur á leik- og grunnskólaaldri.

Það eru ekki mörg sveitarfélög á landinu sem bjóða uppá gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Við í Bláskógabyggð erum stolt af því að stíga þetta skref og erum þess fullviss að fleiri sveitarfélög munu fylgja í kjölfarið.

Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar