5 C
Selfoss
Home Fréttir Aftur trésmiðja í Listasafni Árnesinga

Aftur trésmiðja í Listasafni Árnesinga

0
Aftur trésmiðja í Listasafni Árnesinga

Að venju er efnt til listasmiðju í Listasafni Árnesinga fyrir börn og aðstandendur þeirra síðasta sunnudag hvers mánaðar og sú næsta fer því fram sunnudaginn 25. nóvember kl. 14:00–16:00. Þá verður aftur boðið upp á smiðju þar sem unnið verður með tré á margvíslegan hátt með áherslu á jólaþemu. Þátttakendum verður sýnt hvernig hægt er að vinna með tré á einfaldan hátt og eru foreldrar, ömmur og/eða afar, frændi eða frænka, hvattir til þess að mæta með börnum sínum. Tré þemað fellur að núverandi sýningu, Halldór Einarsson í ljósi samtímans. Þátttaka í listasmiðjunum er ókeypis og allt efni á staðnum.

Klara Öfjörð Sigfúsdóttir.
Kristín Þóra Guðbjartsdóttir.

Listgreinakennararnir Klara Öfjörð Sigfúsdóttir og Kristín Þóra Guðbjartsdóttir leiða trésmiðjuna líkt og þá síðustu sem haldin var í september, þegar fólk á ýmsum aldri fjölmennti í safnið, tálgaði og átti saman frjóa fjölskyldustund. Kristín Þóra er annar tveggja fræðslufulltrúa safnsins og hefur haldið fjölmargar fjölskyldusmiðjur í ýmsum söfnum, þar af nokkrar í LÁ. Klara var um tíma kennari í Sunnulækjarskóla þar sem hún kenndi börnum m.a. að tálga og vinna áhugaverða hluti úr nærumhverfinu og hefur líka unnið stundavinnu við safnið.

Síðasta listasmiðja ársins verður síðan haldin fyrr en venjulega eða sunnudaginn 16. desember sem jafnframt er síðasti sýningardagur ársins. Þá lýkur sýningunni Halldór Einarssonar í ljósi samtímans og líka nýju sýningunni 100 ára fullveldi í huga barna, sem er samvinnuverkefni Bókasafnsins í Hveragerði, Listasafns Árnesinga og Grunnskólans í Hveragerði þar sem sjá má hvernig skólabörnin hafa litið til baka og framá við í tímann. Nánari upplýsingar um sýningarnar og dagskrá safnsins má sjá á heimasíðu þess og samfélagsmiðlum.