-1.5 C
Selfoss

Okkur langar fyrst og fremst að hjálpa fólki

Vinsælast

Nytjamarkaðurinn á Selfossi verður 10 ára nú í desember. Af því tilefni brá blaðamaður sér í kaffi til starfsmanna Nytjamarkaðarins til að forvitnast um starfið. Dagný Dögg Sigurðardóttir, verslunarstjóri Nytjamarkaðarins sat fyrir svörum.

Verkefni fyrir samfélagið
„Nytjamarkaðurinn varð til sem hugmynd hjá Aroni Hinrikssyni sem var forstöðumaður hérna í Hvítasunnukirkjunni. Hún kviknaði eins og svo margar góðar hugmyndir á leiðinni hér yfir „heiðina“ eftir að hann var á ráðstefnu í Reykjavík. Hún kom sem andsvar við hruninu þegar margir misstu allt sitt og höfðu minna á milli handanna. Þetta var, og er, fyrst og fremst verkefni fyrir samfélagið þannig að við í kirkjunni getum látið gott af okkur leiða.
Þann 1. desember 2008 opnaði markaðurinn, fyrst í lánshúsnæði þar sem Rúmfatalagerinn er nú til húsa. Verkefnið fór strax vel af stað, bæði var því vel tekið af fólki sem var að kaupa og eins þeim sem komu færandi hendi. Fyrsta mánuðinn safnaðist um ein milljón. Sá peningur rann allur til góðgerðarmála af ýmsum toga. Ákveðið var að halda verkefninu áfram og á þessum tíma hafa safnast um fjörutíu milljónir, eða rétt um 4 milljónir á ári.“

Styrkjum nærsamfélagið
Aðspurð í hvað söfnunarféð hefur farið segir Dagný: „Sextíu prósent eru nýtt innanlands í ýmis konar góðgerðarmál hér á Suðurlandi. Þar á meðal er ýmis aðstoð við einstaklinga sem eru hjálpar þurfi. HSu, Sjóðurinn góði, Björgunarsveitin og fleiri eru meðal þeirra sem við höfum styrkt. Þá styrkjum við oft með ókeypis húsgögnum eða fatnaði þegar það þarf, til dæmis fólk sem stendur kannski af einhverjum orsökum höllum fæti og er að byrja nýtt heimili með öllu innbúi. Um fjörutíu prósent hefur farið í verkefni erlendis. Undanfarin ár höfum við einkum stutt við verkefni samtakanna ABC barnahjálp í Burkina Faso sem er í Vestur-Afríku. Þar er rekinn skóli fyrir fátæk börn. Það eru hjón frá Selfossi sem sjá um starfið í skólanum og við erum svona bakhjarl þar. Það er ótrúlegt hve uppbyggingin á skólanum hefur gengið vel og það verkefni blómstrar hreinlega.

Leggjum mikið upp úr umhverfismálum
Í dag er mikið lagt upp úr umhverfismálum og ákveðinn snertiflötur við það hér, með endurnotkun. Hvað verður um allt dótið? „Við leggjum mikið upp úr umhverfismálum hér og markmiðið er að gefa hlutunum framhaldslíf. Til okkar kemur ógrynni af dóti og sumt af þessu þurfum við að láta fara og farga því það selst ekki eða er í þannig ástandi. Það er allt flokkað sem frá okkur fer og við förum í gegnum alla hluti. Auðvitað seljum við eins mikið og er mögulegt. Það sem selst ekki eða þarf að farga fer í réttan farveg og við reynum eftir okkar bestu getu að sinna þessu í góðu samstarfi við Árborg.“

Reynum að vera til hjálpar
Ef þú dregur saman í stuttu máli hvað þið standið fyrir. Dagný hugsar sig örstutt um og segir: „Við erum fyrst og fremst að þessu sem góðgerðarmál. Okkur langar að hjálpa fólki. Sumir þurfa fjármuni, aðrir þurfa ódýrar gjafir eða muni. Það getur líka verið að einhver vilji láta gott af sér leiða og er þá með okkur í sjálfboðaliðastarfi. Stundum er fólk að koma sér af stað á vinnumarkaði og byrjar hér og ef það stendur sig get ég gefið því meðmæli, síðar sér maður það blómstra í annarri vinnu. Sjálfboðaliðar eru þannig að hjálpa öðrum en líka að efla sjálfan sig. Við erum ekki bara verslun með notaða hluti heldur reynum við með öllum okkar snertiflötum að verða til hjálpar í samfélaginu.“

Afmæli framundan og heilmikil dagskrá
Afmæli Nytjamarkaðarins verður haldið dagana 7. og 8. desember næstkomandi. Meðal þess sem verður á dagskrá er að nemendur frá Tónlistarskóla Árnesinga koma og spila kl. 17 þann 7. desember og þann 8. desember verður haldið uppboð kl. 12 með lifandi tónlist og veitingum.

Random Image

Nýjar fréttir