0 C
Selfoss

Mannabreytingar hjá Hótel Fljótshlíð

Vinsælast

Núna um miðjan mánuðinn mun Margrét Jóna Ísólfsdóttir láta af störfum hótelstjóra hjá Hótel Fljótshlíð en hún mun þá taka við stöðu fjármálastjóra Rangárþings eystra.

Við þessi tímamót voru gerðar örlitlar skipulagsbreytingar hjá hótelinu. Við stjórnunarstöðunni tekur Frans van den Eijnden en hann hefur unnið hjá Hótel Fljótshlíð með hléum frá árinu 2015. Hann hefur unnið víða um heim við ferðaþjónustu t.d. við leiðsögn, í hótel- og veitingageira og við sölu ferða og ferðaskipulagningu hjá ferðaskrifstofu. Frans er frá Hollandi og er ensku-, þýsku- og frönskumælandi en er að bæta íslensku við og situr nú íslenskunámskeið á vegum Fræðslunets Suðurlands á Hvolsvelli.

Þá tekur Sigurlín Óskarsdóttir við ýmsum verkefnum tengdum bakvinnslu. Sigurlín eða Silla er flestum Rangæingum kunn sem þjónustufulltrúi VÍS á Hvolsvelli en útibúinu var lokað í október sl.

Hótel Fljótshlíð er í eigu Arndísar Soffíu Sigurðardóttur og Ívars Þormarssonar, matreiðslumeistara. Hótelið hlaut umhverfisvottun Norræna Svansins árið 2014 og hefur verið í fremstu röð fyrirtækja á Íslandi sem setja umhverfismálin í öndvegi.

Nýjar fréttir