0 C
Selfoss
Home Fréttir Baráttan gegn einelti

Baráttan gegn einelti

0
Baráttan gegn einelti
Arna Ír Gunnarsdóttir.

Dagurinn í dag, 8. nóvember, er helgaður baráttunni gegn einelti. Í dag eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og skólasamfélagið okkar hér í Árborg tekur höndum saman gegn einelti og slæmum samskiptum. Í leik- og grunnskólunum okkar verður ýmislegt gert til þess að vekja athygli á alvarleika eineltis og mikilvægi vináttu. M.a. verða vinasöngstundir, samverustundir, undirritaðar yfirlýsingar gegn einelti, vinabekkjarheimsóknir milli eldri og yngri bekkja, þemavinna um vináttu og hjálpsemi, gengið gegn einelti þar sem yngri og eldri nemendur mætast á miðri leið, jákvæðum skilaboðum verður dreift, unnin vináttuverkefni, gerð vinabönd, haldnir bekkjarfundir og margt fleira.

Einelti er alvarlegt samfélagsmein. Afleiðingar eineltis eru gríðarlega alvarlegar. Hátt hlutfall þeirra sem á fullorðinsárum glíma við flókin geðræn og félagsleg vandamál eru fórnarlömb eineltis. Til þess að komast í gegnum þá þungbæru reynslu þurfa mörg fórnarlömb eineltis á umfangsmikilli heilbrigðis- og félagsþjónustu að halda til margra ára, með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.

Hlustum á börnin
Til þess að uppræta einelti verða börn að geta sagt fullorðnum frá upplifun sinni. Því er mikilvægt að börn séu hvött til þess að láta vita af einelti, hvort sem það er heima fyrir eða í skólanum. Þau þurfa að finna að þeim sé treyst fyrir orðum sínum. Ef börnum er ekki treyst, þau hunsuð eða ekki er gripið inn í geta þau upplifað tilkynningar sínar sem tilgangslausar.

Sýnum börnunum að okkur stendur ekki sama, hlustum á þau og tökum þau alvarlega. Ef að barni líður illa þá er það raunverulegt. Við megum aldrei hunsa eða gera lítið úr þeirra upplifunum af því að við teljum okkur vita betur hvernig þeim ætti að líða.

Það er mikil og stöðug vinna að uppræta einelti og fyrirbyggja það. Það er risastórt samvinnuverkefni okkar allra sem störfum með börnum og ungmennum. Það þarf í alvöru heilt samfélag til þess að ala upp barn. Við foreldrar þurfum að fylgjast vel með og láta okkur varða velferð allra barna í samfélaginu. Það er líklegra að mínum börnum farnist vel í samfélagi sem einkennist af góðum félagstengslum og samheldni. Sýnum börnunum að það skipti okkur máli hvernig þeim líður. Við verðum að geta horft í augun á þeim þegar þau verða fullorðin og hugsað; ég gerði allt sem í mínu valdi stóð.

Forvarnir gegn einelti

Baráttunni gegn einelti lýkur aldrei. Við þurfum stöðugt að miðla góðum lífsgildum, standa fyrir reglulegri fræðslu og umræðum um einelti og afleiðingum þess. Öflug forvörn gegn einelti og slæmum samskiptum er að veita börnum skipulega þjálfun í að vera saman í leik og starfi þar sem lýðræði, mannréttindi og jafnrétti eru höfð að leiðarljósi. Efling þeirrar færni er liður í því að gera umhverfið jákvæðara þar sem slæm samskipti ná síður að skjóta rótum.

Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi S-lista og formaður fræðslunefndar í Árborg.