1.1 C
Selfoss

Lokahóf í Húsinu á Eyrarbakka á sunnudag

Vinsælast

Síðasta degi sumaropnunar á Byggðasafni Árnesinga verður fagnað með laufléttri dagskrá í Húsinu á Eyrarbakka sunnudaginn 30. september nk. Þar munu listamenn bjóða gesti velkomna, vinnusmiðja verður fyrir krakka, sögufróðleikur fyrir gesti og ljúfir tónar fylla loftið. Sérsýningar sumarsins í Húsinu eru tvær; Marþræðir í borðstofunni og Stakkaskipti í fjárhúsinu og þeim lýkur í lok mánaðar.

Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir.

Sýningin Marþræðir er fullveldisárið með augum listamannsins Ástu Vilhelmínu Guðmundsdóttur þar sem hún beinir sjónum sínum að fjörunni og fjörunytjum. Ásta notar hráefni eins og sjávargróður ásamt ullinni til að vísa í bjargræði fólks þegar illa áraði. Marþræðir er samspil textílverka hennar við vel valda gripi úr safneign og veitir frumlega sýn á söguna.

Í fjárhúsinu sýna fjórar ólíkar listakonur verk sín. Þetta eru þær, Halla Ásgeirsdóttir keramiker, Halla Bogadóttir gullsmiður, Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður og Margrét Birgisdóttir myndlistarmaður. Hugmyndin að sýningunni fæddist fyrir nokkrum árum og röð tilviljana leiddi þær á slóðir Eyrarbakka. Þær heilluðust af þeirri hugmynd að umbreyta grófu umhverfi eins og gamla fjárhúsinu í sýningarsal og þannig er nafnið Stakkaskipti tilkomið því sannarlega umbreyttu þær fjárhúsinu, sjón er sögu ríkari. Listamenn taka vel á móti gestum yfir daginn frá kl. 14.00

Magnús Karel Hannesson flytur stutt erindi kl. 15:00 með sögubútum sem tengjast fjörunytjum og yfir daginn leikur Örlygur Benediktsson ljúfa tóna á gamla píanó Hússins. Vinnusmiðja verður fyrir krakka þar sem við finnum efni í fjörunni og sköpum hafkarl og kerlingu sem munu hanga inni á hluta af Marþræða sýningunni hennar Ástu. Mæting er við bryggjuna á Eyrarbakka kl. 11:00 og þátttakendur ættu helst að mæta í skítagallanum.

Allir eru velkomnir á lokadag safnsins, enginn aðgangseyrir og heitt á könnunni. Nánari upplýsingar má finna á heimsíðu safnsins www.husid.com og fb síðu.

Nýjar fréttir