9.5 C
Selfoss

Skortur húsnæðis stærsta áskorunin

Vinsælast

Líflegar umræður sköpuðust á opnum fundi Íbúðalánasjóðs um húsnæðismarkaðinn á Suðurlandi sem haldinn var á Hótel Selfossi í dag. Þar var kynnt greining sjóðsins á íbúðamarkaði, leigumarkaði og byggingarmarkaði á landsvæðinu. Jafnframt var fjallað um helstu áskoranir og tækifæri sveitarfélaganna á Suðurlandi í húsnæðismálum.

Meðalsölutími hefur styst um sjö mánuði
Verðhækkanir, aukin uppbygging og fólksfjölgun hafa einkennt húsnæðismarkaðinn á Suðurlandi síðustu misseri. Landsvæðið er þó víðfeðmt og staða húsnæðismarkaðar er ólík eftir búsetusvæðum. Á fundinum kom fram að íbúðaviðskiptum á Suðurlandi hefur fjölgað meira en annars staðar á landinu undanfarin ár. Í fyrra fluttu um 400 manns frá höfuðborgarsvæðinu á Suðurland en ætla má að hátt húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hafi átt nokkurn þátt í því.

Frá árinu 2015 hefur meðalsölutími íbúða á Suðurlandi styst úr 10 mánuðum í um 3 mánuði og er nú svipaður og á höfuðborgarsvæðinu. Hæst er íbúðaverðið í Hveragerði þar sem meðalfermetraverð er um 300 þúsund krónur. Sérbýli á Árborgarsvæðinu er að meðaltali um þriðjungi ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu og hefur sá munur lítið breyst undanfarin ár.

Húsnæðisskortur erfiður fyrir atvinnulífið
Á fundinum var einnig fjallað um helstu áskoranir sveitarfélaganna á Suðurlandi í húsnæðismálum og hvar væru möguleg tækifæri til að bregðast við. Stærstu áskoranir sveitarfélaganna á Suðurlandi eru mikill skortur á íbúðarhúsnæði. Atvinnuuppbygging hefur verið mikil á undanförnum árum og nú er svo komið að skortur á íbúðarhúsnæði er farinn að hamla frekari uppbyggingu og þróun bæjarfélaga á Suðurlandi. Einnig er sammerkt með sveitarfélögunum að skorturinn snýr ekki hvað síst að viðeigandi leiguhúsnæði fyrir fólk sem kemur að til að sækja atvinnu. Fólksfjölgun og verðhækkanir húsnæðis skapa þó einnig tækifæri og grundvöll fyrir sveitarfélögin til að sækja fram.

„Byggingamarkaðurinn á Suðurlandi hefur tekið við sér að undanförnu. Uppbyggingin er þó misdreifð á milli svæða. Árborg og Hveragerði eru dæmi um sveitarfélög þar sem talsverður fjöldi nýbygginga hefur komið inn á íbúðamarkað með jákvæðum áhrifum á samfélagið. Það er þó mikil þörf á uppbyggingu íbúða í mörgum fleiri sveitarfélögum enda hefur fólksfjölgun verið mikil,“ segir Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs.

„Það er að fara af stað tilraunaverkefni á vegum Íbúðalánasjóðs sem snýr það að því að leita lausna á þeim landssvæðum þar sem mikill skortur er á íbúðarhúsnæði og ekki hefur reynst arðbært að byggja nýtt húsnæði til að mæta skortinum. Við finnum fyrir miklum áhuga á verkefninu og nokkur sveitarfélög hafa nú þegar sótt um að taka þátt,“ segir Sigrún Ásta Magnúsdóttir, deildarstjóri á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs.

Nýjar fréttir