1.7 C
Selfoss

Þorlákshöfn hefur sannað gildi sitt

Vinsælast

Það hefur tekið áratugi að byggja upp viðunandi hafnaraðstöðu í Þorlákshöfn og nú vantar aðeins herslumun á að gera höfnina eins örugga og kostur er. Suðurgarð þarf að lengja til austurs og dýpka grynnslin í innsiglingarleiðinni svo aðkoman að höfninni verði örugg í öllum veðrum. Þetta er ekki lengur alfarið hagsmunamál íbúa í Þorlákshöfn og Ölfusi. Siglingar Smyril Line Cargo með skipinu Mykinesi hafa opnað nýja og ódýrari leið fyrir fragtsiglingar frá meginlandi Evrópu til Íslands sem hreinlega hafa slegið í gegn á fyrsta árinu hjá innflytjendum og útflytjendum.

Flutningskostnaður 40% lægri
Í apríl 2017 hóf færeyska félagið Smyril Line Cargo siglingar á róró skipinu Mykinesi á milli Rotterdam í Hollandi og Þorlákshafnar með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum á leiðinni til Íslands. Þessi tilraun sem staðið hefur í rúmlega eitt ár er komin til að vera og Smyril Line og hafnaryfirvöld í Þorlákshöfn hafa nú gert með sér nýjan langtímasamning sem tryggir Þorlákshöfn meiri og öruggari tekjur. Strax á fyrsta árinu eru tekjur hafnarinnar af inn- og útflutningi með Mykinesi langt umfram væntingar. Þessar tekjur munu breyta öllu í rekstri og afkomu hafnarinnar á komandi árum. Með tilkomu þessarar siglingaleiðar hafa farmgjöld til og frá landinu lækkað flutningskostnað einstaklinga og fyrirtækja um 40% en það er helsta ástæðan fyrir þeirri velgengni sem Þorlákshöfn og Smyril Line Cargo hafa notið strax á fyrsta árinu.

Lægra kolefnisspor til Þorlákshafnar
Vegna legu hafnarinnar er siglingatíminn frá Rotterdam til Þorlákshafnar 16 klukkustundum styttri en ef siglt er á Faxaflóahafnir. Þess vegna nær eitt skip að dekka siglingaráætlunina í vikulegum siglingum milli Íslands og meginlands Evrópu, en komið er við í Þórshöfn í Færeyjum á leiðinni frá Rotterdam. Styttri siglingatími sem nemur 16–18 klukkustundir hefur jákvæðu áhrif á fleiri þætti. Kolefnisspor vöruflutninga þessa sjóleið til og frá landinu er mun minni en til annarra áfangastaða við Faxaflóa eða þeirra hafna sem eru lengra frá stærstu mörkuðum landsins.

Lægra vöruverð og samkeppnishæfni
Ferskar sjávarafurðir og eldisfiskur sem fara vikulega á föstudagskvöldum með Mykinesi eru komnar til sölu á mörkuðum síðdegis á mánudegi í vestanverðri Evrópu en á þriðjudagsmorgni á Ítalíu, Spáni og Portúgal. Með þessari nýju og styttri siglingaleið, lægri flutningsgjöldum sem nemur 40% ætti það að hafa áhrif til lækkunar á vöruverði á Íslandi og gera útflutningsgreinar samkeppnishæfari á erlendum mörkuðum.

Tollsvæðið sem höfnin útbjó í upphafi fyrir innflutning er löngu sprungið, þess vegna er nýtt 40.000 fermetra afgirt og upplýst tollsvæði norðan hafnarinnar að verða klárt í notkun til að mæta mikilli og brýnni þörf. Frá Þorlákshöfn eru greiðar samgöngur við höfuðborgarsvæðið og Vesturland um Þrengslaveg og Suðurlandsveg, um Ölfusárbrú að Selfossi og Suðurland og Suðausturland og um Suðurstrandarveg við Suðurnes og alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.

Þorlákshöfn er vel staðsett í 50 km radíus frá markaðssvæði þar sem 2/3 hlutar þjóðarinnar búa og starfa. Auk nálægðar við stærsta markaðinn eru helstu náttúru- og ferðamannaperlur landsins í innan við 2–3 klst. akstur frá höfninni í Þorlákshöfn, en skemmtiferðaskip hafa komið inn í höfnina á þessu ári og þeim gæti fjölgað.

Nýr lóðsbátur og bætt innsigling
Þær breytingar sem gerðar hafa verið á innviðum hafnarinnar í Þorlákshöfn á liðnum árum hafa tekist framúrskarandi vel og verið langt undir kostnaðaráætlun. Lagfæringin hefur gjörbreytt aðstöðu og möguleikum hafnarinnar til að taka á móti stærstu skipum sem til landsins koma. Það liggur þó fyrir að innsiglingin í höfnina þegar hvass vindur er að sunnan eða suðaustan gerir innsiglinguna varasama á stórum skipum með mikið vindfang. Þess vegna höfðu skipstjórnarmenn á Mykinesi æft innsiglinguna í Þorlákshöfn í siglingahermi alls um 200 inn og útsiglingar áður en vikulegar siglingar hófust. Þeir voru því við öllu búnir en í erfiðustu aðstæðunum sem áður er getið þarf skipið að sigla á töluverðum hraða til að halda stefnu við þröngar og krefjandi aðstæður. Þessar aðstæður þarf að lagfæra til að bæta öryggi hafnarinnar og sjófarenda við suðurströndina og hluti af því er að nýr og öflugri lóðsbátur verði fenginn að höfninni.

Sveitarfélagið Ölfus er öflugt samfélag í mikilli sókn og hefur yfir sterkum innviðum að ráða auk nægu landrými til að takast á við aukin verkefni á sviði farm- og farþegaflutninga. Þar er hefð fyrir öflugri útgerð og fiskvinnslu, útflutningur á vikri og öðrum jarðefnum hefur farið fram um höfnina í áratugi og fiskeldi vex fiskur um hrygg í sveitarfélaginu. Í fárra kílómetra fjarlægð frá höfninni eru ein gjöfulustu vatnsverndarsvæði landsins sem og öflugt jarðhitasvæði sem eru óinnheimt tækfæri fyrir framtíðina.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.

Nýjar fréttir