3.4 C
Selfoss

Mest er þetta fólk sem er að spara og ferðast skynsamlega um heiminn

Vinsælast

Valdimar Árnason hefur um nokkurt skeið rekið Farfuglaheimilið á Selfossi eða Selfoss Hostel eins og það er nefnt á erlendum vefsíðum. Hann rekur einni Selfoss Apartments, en í því húsnæði eru sjö litlar íbúðir. Allt er þetta rekið undir nafninu Samsteypan ehf. Á Selfoss Hostel er hægt að vera með 70 manns í rúmum og um 25 manns í Selfoss Apartments.

Boltinn fór að rúlla þegar Ísland komst á kortið
Það var árið 2009 sem Valdimar gerði leigusamning við ríkið sem er eigandi að húsnæðinu að Austurvegi 28 á Selfossi þar sem Selfoss Hostel er. Þar hafði áður verið öldrunarstofnunin Ljósheimar frá 1984 til 2005. Húsnæðið stóð autt í 3–4 ár áður en Valdimar gerði leigusamning um það. Í kjölfar leigusamningsins 2009 fór Valdimar í ýmsar breytingar á húsnæðinu en það var orðið frekar illa farið. Hann byrjaði svo með reksturinn vorið 2010 þ.e. að selja gistingu. „Þá var bara svolítið að gera tvo mánuði á ári og svo voru tíu rólegir mánuðir. Þannig var þetta nú fyrstu 2–3 árin. Svo fór boltinn að rúlla og Ísland að komast á kortið. Smám saman hefur því orðið meira og meira að gera. Núna eru kannski 1–2 mánuðir sem eru mjög rólegir eða nóvember og desember. Síðan eru norðurljósin sem taka við í janúar þannig að þetta er orðið skemmtilegt mest allt árið,“ segir Valdimar.

Hann segir að byggingin hafi verið tekin upp hægt og bítandi og því hafi hann aldrei skuldað neitt að ráði. Reksturinn hafi alltaf verið í lagi og skilað smá hagnaði. Síðustu 2–3 árin hafi þetta gengið betur en áður.

Á meðal þeirra bestu í heiminum
„Við fengum inngöngu i Farfuglana 2009 en núna eru 39 farfuglaheimili á Íslandi, hringinn í kringum landið. Við erum hluti að keðju sem telur um 4.000 hostel um allan heim. Það er gaman að segja frá því að síðustu árin höfum við Íslendingar alltaf verið með 2–3 hostel inn á topp tíu í heiminum. Við höfum best náð 10. sæti með heimilið hér á Selfossi.“

Brosmildir bandarískir gestir að fá sér morgunmat. Mynd: ÖG.

Íslands vinsælt hjá Bandaríkjamönnum
Gestir á farfuglaheimilinu á Selfossi eru að sögn Valdimars mest ungt fólk í kringum tvítugt en svo hefur líka farið vaxandi að fjölskyldur með eitt til tvö börn komi. Hann nefnir einnig eldri borgara eða bara „öll flóran“ eins og hann segir.

„Mest er þetta fólk sem er að spara og ferðast skynsamlega um heiminn. Þegar við byrjuðum var mikið af Þjóðverjum, Spánverjum og Frökkum. Frökkum og Spánverjum hefur fækkað eitthvað undanfarið, kannski út af því að Ísland er orðið svolítið dýrt. Ísland er þó orðið nokkuð vinsælt hjá Bandaríkjamönnum. Það er m.a. út af því að Íslands er tiltölulega öruggt land. Bandaríkjamenn hugsa nokkuð um hvar eru helst hættulaus svæði. Svo hafa Asíubúarnir verið að koma rosalega sterkir inn. Ísland hefur verið auglýst mikið í Kína en þar er stækkandi millistétt og hópar sem hafa komið hingað. Þetta er svo mikið af fólki þannig að ef lítil prósenta kemur hingað er nóg að gera hjá öllum Íslendingum. Asíubúarnir koma mest hingað eftir áramótin eða í janúar og febrúar.“

Boðið er upp á uppábúin rúm í Selfoss Hostel. Mynd: ÖG.

Dormað í „Dorminu“
„Ódýrasta gistingin hjá okkur er í svokölluðu „dormi“ þar sem að eru átta uppábúin rúm með góðum dýnum í einu rými. Þar er hægt að fá gistingu fyrir 4.500 krónur. Inn í því er aðgangur að sturtu og flottu gestaeldhúsi. Síðan er heitur pottur og hægt að láta þvo af sér. Svo eru líka í boði tveggja manna herbergi sem kosta 12.500 krónur. Einnig þriggja, fjögurra og fimm manna herbergi. Einnig er hægt að fá hjá okkur morgunmat með heimagerðu brauði og sultum en flestir elda sér þó sjálfir.“

Allt prívat á Selfoss Apartments
Valdimar keypti húsnæðið að Austurvegi 36 undir Selfoss Apartments af Sveitarfélaginu Árborg árið 2013 og breytti því í sjö íbúðir. Áður var þar leikskóli. Þar er hann með aðeins dýrari gistingu, en tveggja manna herbergi kostar 18.000 krónur. „Það er með prívat eldhúsi, sturtu og klósetti. Gestir þar fá líka lykil að hostelinu og geta notað heita pottinn og gestaeldhúsið þar,“ segir Valdimar.

Valdimar er með 6–8 manns í vinnu. Fastir starfsmenn eru 4–5 en 2–3 hefur verið bætt við á sumrin. Þau eru með þvottahús á staðnum og þvo allt sjálf og gera það eins hagstætt og hægt er.

Random Image

Nýjar fréttir