-1.5 C
Selfoss

Hugleiðingar um orðið Bjarkarstykki

Vinsælast

Frá því farið var að ræða um nýtt byggingarland á Selfossi á svæðinu vestast á Selfossi neðan Eyrabakkavegar hefur landið verið nefnt Björkustykki eða Björkurstykki. Það þarf ekki mikla íslenskukunnáttu til að sjá að þetta eru ekki réttar beygingarmyndir af orðinu Björk en svæðið er gamall hluti úr landi jarðarinnar Bjarkar. Kvenkynsnafnorðið Björk beygist á eftirfarandi hátt: Björk – Björk – Björk – Bjarkar. Því væri réttur ritháttur Bjarkarstykki og þá um leið Bjarkarskóli.

Ef leitað er heimilda í Sögu Selfoss eftir Guðmund Kristinsson koma orðin Bjarkarstykki eða Bjarkarspilda fyrir a.m.k. á tveimur stöðum.

Örnefni í Bjarkarstykki
Bjarkarstykki er austan við Eyrarbakkaveg á móti Haga. Það nær austur að Strýtuhóli sem er rétt sunnan við Selfossmörkin, um 300 m fyrir vestan Kerhól. Allnokkuð fyrir vestan Strýtuhól, sunnarlega í Bjarkarstykki er Bjarkarstekkur við tvo litla hóla, sem notaður var um fráfærur frá Björk. Áveituskurðurinn, Selfosslína, gengur um Leirkeldu og vestur Bjarkarstykki og kallast Símonarskurður. Vestur við veginn er Grænutóftarheiði, og er Grænhóll á henni miðri.
(
Saga Selfoss I. bindi bls. 36.)

Málið lagt fyrir Alþingi
Hinn 11. desember 1945 var útbýtt á Alþingi „Frumvarpi til laga um sameiningu Selfossbyggðar í eitt sveitarfélag.“ Þar segir í 1. grein:
„Selfossbyggð í Árnessýslu, sem vaxið hefur upp á mótum þriggja hreppsfélaga við Ölfusárbrú, skal verða sérstakt sveitarfélag, er nefnist Selfosshreppur. Í hinum nýja hreppi eru þessar jarðir: Selfoss og Hagi ásamt Bjarkarspyldu úr Sandvíkurhreppi, Árbær og Hellir ásamt Fossnesi úr Ölfushreppi og sneið af Laugardælalandi í Hraungerðishreppi, er markast af beinni línu frá Virkisvörðu til hæsta klettsins í nyrzta ferjuholti í Hellislandi. Að öðru leyti eru landamerki jarða þeirra, sem að ofan eru taldar, hreppamörk hins nýja Selfosshrepps.“
(Saga Selfoss II. bindi bls. 301.)

Örn Guðnason ritstjóri Dagskrárinnar.

Random Image

Nýjar fréttir