1.7 C
Selfoss

Leikskólinn Jötunheimar 10 ára

Vinsælast

Á morgun laugardaginn 8. september fagnar leikskólinn Jötunheimar á Selfossi 10 ára afmæli sínu. Í tilefni þess verður opið hús í leikskólanum í dag föstudaginn 7. september kl. 9:00–11:00 og kl. 13:00–15:30. Börnin hafa tekið virkan þátt í að undirbúa afmæli leikskólans meðal annars með því að túlka upplifun sína í máli og myndum.

Þar sem Jötunheimar fagna stórafmæli er vel við hæfi að rekja sögu leikskólans í stuttu máli. Fyrsta skóflustungan að leikskólanum var tekin 8. maí 2007. Jötunheimar hófu starfsemi sína 8. september 2008 þegar tveir elstu leikskólar Árborgar sameinuðust í einn leikskóla og fluttu í nýtt sex deilda húsnæði að Norðurhólum 3 á Selfossi.

Skólastarf Jötunheima byggir á lögum um leikskóla nr. 90/2008 með breytingum sem tóku gildi 8. apríl 2009 og aðalnámskrá leikskóla sem var gefin út í febrúar 2011. Aðalnámskráin er stefnumótandi leiðarvísir um starf leikskóla og hver leikskóli markar sér sína leið að markmiðum hennar með gerð skólanámskrár.

Á þessum tíu árum hefur orðið mikil þróun á skólastarfi Jötunheima og má meðal annars nefna þátttöku í þremur þróunarverkefnum. Í nóvember 2017 urðu Jötunheimar Heilsueflandi leikskóli sem er verkefni á vegum Embættis landlæknis.

Í nóvemberlok 2017 fór fram ytra mat á skólastarfi Jötunheima og sá Menntamálastofnun um framkvæmd matsins. Í niðurstöðum kom fram að í Jötunheimum fer fram metnaðarfullt leikskólastarf þar sem stefna leikskólans og leikurinn birtist vel í öllu starfinu þar sem börnum og starfsfólki líður vel.

Starfsfólk Jötunheima er stolt af skólanum sínum og var því ánægt með niðurstöðu ytra matsins. Leikskólinn mun halda áfram að þróa það góða starf sem nú þegar á sér stað í Jötunheimum og að sjálfsögðu er stefnt áfram og lengra með því að halda leiknum sem kennsluaðferð hátt á lofti, því leikurinn á vísdóm veit.

Nýjar fréttir