8.9 C
Selfoss

Sé ég fyrir mér að það verði barist mikið fyrir bættum samgöngum

Vinsælast

Kristófer Tómasson hefur starfað sem sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá því snemma árs 2012 eða í sex og hálft ár. Nýlega var hann endurráðinn til næstu fjögurra ára. Kristófer kveðst horfa fram á kjörtímabilið með bjartsýni í huga, mörg spennandi verkefni séu framundan.

Öflugt félags- og menningarlíf
„Hér er gott mannlíf og gott að búa. Hér eru starfandi margir kórar, Lionsklúbbur, kvenfélög, íþróttafélög og reglulega sett upp leikrit. Þrátt fyrir alla þessa nútímasamskiptamiðla og freistingar í nútímanum þá hefur gengið vel að halda úti öflugu félags- og menningarlífi. Það finnst mér athyglisvert,“ segir Kristófer.

Hann segir að sveitarfélagið eigi mörg tækifæri og íbúar eigi að bera höfuðið hátt og nýta þau sem best. Í sveitarfélaginu sé góður mannauður og nokkuð fjölbreytt atvinnulíf. Þjónusta sé góð og eitt af markmiðunum sé að bæta hana enn frekar. Innviðirnir, einkum skóli og leikskóli, hafi burði til að taka við talvert fleiri íbúum. Hann væntir þess að á kjörtímabilinu verði miklar framkvæmdir og framfarir.

Umfangsmiklar gatnagerðarframkvæmdir

Kristófer var spurður hvað væri helst að gerast hjá sveitarfélaginu um þessar mundir.

„Við erum núna í mjög umfangsmiklum gatnagerðarframkvæmdum sem er langstærsta verkefnið þetta árið og kosta um 120 milljónir króna. Það er verið að taka í gegn götur og lagnir í báðum þéttbýliskjörnunum okkar, í Árnesi og í Brautarholti. Þar er líka verið að koma fyrir fullnægjandi fráveitukerfi, bæta götulýsingu og ekki síst að malbika göturnar. Það verður gert núna í haust og á því verki að vera lokið í október. Á síðasta ári var reist skólphreinsistöð í Brautarholti fyrir 50 milljónir. Á okkar mælikvarða eru þetta býsna stór verkefni.“

Kristófer segir að sveitarfélagið sé með stóran fasteignapakka og viðhald þeirra sé eitthvað sem aldrei taki enda. „Síðustu ár höfum við lagt nokkuð vel í viðhald eignanna. Við höfum til að mynda málað, endurnýjað gólfefni, glugga og þök og lagfært umhverfi eins og stéttar og þessháttar. Við keyptum hlut í iðnaðarhúsnæði hér í Árneshverfinu á síðasta ári undir áhaldahús sveitarfélagsins. Búnaðarfélag Gnúpverja stóð fyrir þeirri byggingu af myndarskap. Þar er meðal annars búið að opna kjötvinnslu og slökkvistöð. Í lok júlí stóð sveitarfélagið fyrir borun eftir heitu vatni á bænum Þjórsárholti. Við fengum mikið magn af vatni eða ca. 80 sekúndulítra. Hitinn á vatninu er 65–67 gráður. Vatnið kom á aðeins 120 metra dýpi. Þetta eru mikil gleðitíðindi sem ég efast ekki um að muni hafa góð áhrif í samfélaginu. Að hafa aðgang að nægu heitu vatni er með því mikilvægara í hverju samfélagi. Það eru reyndar margar hitaveitur starfandi í hreppnum og eftir því sem ég veit best eru öll heimili hér hituð upp með heitu vatni. Þar erum við með sérstöðu af dreifbýlissveitarfélagi að vera.“

Þurfum að taka Skeiðalaug í gegn

Hvaða verkefni eru helst framundan?

„Það er nú ekki búið að ákveða neitt fyrir næsta ár. Það verður gert með afgreiðslu fjárhagsáætlunar sem unnin verður í haust. Þörf er á að taka Skeiðalaug í Brautarholti í gegn. Sundlaugarhúsið er illa farið og við þurfum að leggja einhverja tugi milljóna í að lagfæra það. Ástand fasteigna fyrir utan sundlaugarhúsið er annars nokkuð gott. Það hefur ekki verið ákveðið að byggja neitt á vegum sveitarfélagsins á næstu misserum, en í ljósi mikillar eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu er ekki útilokað að sveitarfélagið muni standa að því að byggja eða kaupa íbúðir á næstu árum. Úthlutað hefur verið tveimur samliggjandi verslunar- og þjónustulóðum undir ferðaþjónustu í Brautarholti. Á vegum einkaaðila er að rísa þriggja íbúða raðhús í Árneshverfinu. Þá er eitt byggingafyrirtæki búið að fá lóðir undir fjórar íbúðir í Brautarholti. Líklegt er að bygging tveggja íbúðanna fari af stað seint í haust. Þar að auki er búið að úthluta lóðum í Brautarholti undir tvö raðhús sem munu samtals telja allt að tólf íbúðum. Að því stendur fyrirtækið Landstólpi. Í Árnesi er líka annar verktaki búinn að fá úthlutað tveimur lóðum undir tvö parhús. Okkur hér á skrifstofunni berast margar fyrirspurnin um lóðir og laust húsnæði.“

Ferðaþjónusta fyrir milljarða

Framundan er mikil uppbygging í Þjórsárdal. Þar ætlar félagið Rauðikambur ehf. að byggja upp ferðaþjónustu, í Reykholti þar sem gamla sundlaugin er. Kristófer segir að áformað sé að það verk allt muni kosta allt að fjórum milljörðum.

„Skipulagsferlið þar stendur yfir núna. Það hefur farið mikill tími hjá okkur í að undirbúa það með forsvarsmönnum Rauðakambs og forsætisráðuneytisins, en svæðið er þjóðlenda. Þetta er mjög viðamikið verkefni. Til þess getur komið að verkefnið þurfi að fara í umhverfismat þannig að skipulagsferlið getur orðið ansi langt. Eiginlegar framkvæmdir byrja varla fyrr en líða fer á næsta ár. Við vonumst til að áður en nýhafið kjörtímabil verður liðið sjáum við þarna rísa vegleg mannvirki þ.e.a.s. baðlón, hótel og veitingastað. Við væntum þess að mörg störf hljótist af þessu verkefni. Áætlað er að þarna geti orðið til allt að 30 ársverk. Fyrirtækið hefur horft til þess að byggja íbúðir hér í Árneshverfinu fyrir starfsfólk. Það verða því töluverð áhrif af þessu, ef að líkum lætur, mörg afleidd störf og vonandi fjölgun í skóla og leikskóla. Ég held því að þetta komi til með að verða töluvert áhrifaríkt verkefni á kjörtímabilinu sem er framundan.“

Margar vinnandi hendur

Nýlega var lokið við að byggja Búrfell II, 100 MW virkjun. Kristófer segir að þar hafi verið margar vinnandi hendur síðustu rúm tvö árin. Hvammsvirkjun sé í bið núna ekki sé ólíklegt að ósk um framkvæmdaleyfi muni koma inn á borð sveitarstjórnar. „Ég get ekki alveg séð hvenær en held að það séu alla vega tvö ár í það. Það á svo eftir að koma í ljós hvernig það verður afgreitt. Ég hugsa að það mál geti orðið svolítið fyrirferðarmikið. Skipulagsferlið er s.s. í vinnslu en það er margt óunnið í því.“

Sterkur landbúnaður í héraðinu

Hvað með önnur mál í sveitarfélaginu?

„Við erum hér með sterkan landbúnað og er gaman að segja frá því að við erum t.d. að framleiða 6–7% af allri mjólk í landinu. Hér eru 26 mjólkurframleiðendur. Þeir standa nokkuð vel að vígi flestir held ég. Sauðfjárræktin er ekki mjög fyrirferðarmikil en hér er þó um 5.000 vetrarfóðrað fé. Í þeirri grein eru auðvitað miklar blikur á lofti. Hér er líka stunduð loðdýrarækt, svínarækt og einhver hestamennska og hestatengd ferðaþjónusta. Ferðaþjónustan hefur verið að sækja í sig veðrið. Ekkert þó í þeim mæli sem er í sveitunum hér fyrir vestan okkur. Þetta eru meira litlar fjölskyldueiningar með gistingu, hestaferðir og þess háttar. Við erum þó með eitt fullvaxið fyrirtæki, Hótel Heklu. Þar eru allmörg ársverk. Við höfum fundið fyrir áhuga aðila, fyrir utan ævintýrið í Þjórsárdal, þ.e. að sækja í sig veðrið í ferðaþjónustu. Hér er rekið öflugt fyrirtæki sem heitir Landstólpi. Þar starfa um 40 manns. Hlutverk þess er verslun og þjónusta með rekstrarvörur til landbúnaðar, þar með talin stálgrindarhús. Einnig eru hér nokkur öflug verktakafyrirtæki starfandi.“

Langþreytt á vondum vegum

Hvað með vegamálin og annað sem snýr að hinu opinbera?

„Ef við horfum á kjörtímabilið sem er framundan sé ég fyrir mér að það verði barist mikið fyrir bættum samgöngum. Við erum orðin langþreytt á vondum vegum hér. Okkar þolinmæði á úrbótum í vegamálum er orðin mjög takmörkuð. Það á bæði við um stofnvegi og sérstaklega tengivegi, afleggjara heim að bæjum. Þetta er meira og minna í slæmu ástandi. Einnig má nefna símasambandið. Þó ótrúlegt sé þá er á allmörgum bæjum lítið sem ekkert gsm samband. Við höfum lengi barist fyrir úrbótum í þeim efnum en það hefur gengið afskaplega hægt. Eins og kollegar mínir víða um land hafa getið um í viðtölum og skrifum þá dregur ríkið lappirnar í framlögum til sveitarfélaga. Verkefni hafa verið flutt yfir til sveitarfélaga og það fylgja þeim engan veginn nægir peningar. Það þarf að gera bragarbót á því. Barátta okkar í sveitarfélögunum við ríkisvaldið í þessum efnum hefur skilað allt of litlu. Ég get nefnt sem dæmi málefni fatlaðra. Bergrisinn heitir byggðasamlag um þann málaflokk sem öll sveitarfélög á Suðurlandi eiga aðild að. Það vantar ca. 100–120 milljónir frá ríkinu til málaflokksins á ári inn í byggðasamlagið svo ríkið standi við sitt. Einnig má nefna að sveitarfélögin eru að mér virðist enn með skertan hlut hvað rekstur grunnskólanna varðar. Þetta er náttúrulega eitthvað sem er ekki hægt að sætta sig við.“

Talsvert í land í umhverfismálum

Hvernig standa umhverfismálin hjá ykkur?

„Umhverfismál er nokkuð stór málaflokkur hjá sveitarfélaginu líkt og hjá mörgum. Það má segja að öll sveitarfélög séu á kafi í rusli. Ég er ekki að meina umgengni í sveitarfélögum, heldur það mikla magn af úrgangi sem fellur til. Við tókum upp nokkuð skýrar flokkunaraðferðir árið 2009. Við höfum verið að afsetja lífræna sorpið hér innan sveitar með nokkrum aðferðum. Við teljum það hafa verið framfaraspor. Við erum að berjast fyrir bættri flokkun og minnkandi urðun. Mér sýnist sveitarfélögin ekki hafa val um annað en að bæta sig í þeim efnum. Það kann þó að vera einhver þeirra hafi náð fullnægjandi árangri, held samt varla. Úrgangsáætlun á landsvísu til næstu ára kveður á um að minnka eigi urðun verulega mikið. Það er með okkur hér í þessu sveitarfélagi eins og aðra að við eigum talsvert í land með að nálgast þau markmið sem horft er til núna eftir nokkur ár. En margir íbúar eru til fyrirmyndar hvað þetta varðar og virðist mér sá hópur fara stækkandi. Þessi málaflokkur er gríðarlega dýr.

Skipulagsmálin eru einnig fyrirferðarmikil hjá okkur. Við höfum verið að vinna að nýju aðalskipulagi og vonumst til að það taki gildi snemma á næsta ári. Maður verður var við að sumum finnist skipulagsmálin ganga hægt. Ég vildi gjarnan persónulega sjá að ferli skipulagsmála væri ekki svona löng og flókin. En vissulega dugar ekkert kæruleysi í þeim efnum,“ segir Kristófer að lokum.

Nýjar fréttir