Í sumar hafa verið gerðar miklar endurbætur á húsnæði Vallaskóla á Selfossi. Helstu framkvæmdir sem eru yfirstandandi eða að klárast eru nýjar innréttingar og tæki fyrir heimilisfræðistofuna ásamt nýrri og betri aðstöðu fyrir skólahjúkrunarfræðing og aðra stoðþjónustu. Þá er verið að ljúka við að byggja yfir síðustu tvo útigarðana og skipta um glugga í húsnæði skólavistunar.
Guðbjartur Ólason skólastjóri segir að framkvæmdirnar séu liður í því að bæta þjónustu við nemendur og þeirra þarfir ásamt því að stækka skólann. „Við vorum komin alveg að sársaukamörkum í fyrra, þetta er því góð viðbót sem kemur með nýju stofunum, en 612 nemendur eru skráðir í skólann eins og er.“