9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Martin Bjarni keppir á Ólympíuleikum ungmenna í október

Martin Bjarni keppir á Ólympíuleikum ungmenna í október

0
Martin Bjarni keppir á Ólympíuleikum ungmenna í október
Martin Bjarni í keppni á svifrá á Evrópumótinu í Glasgow.

Selfyssingurinn Martin Bjarni Guðmundsson, sem keppir með Gerplu, hefur verið valinn til að keppa í áhaldafimleikum á Ólympíuleikum ungmenna (The Youth Olympic Games, YOG) sem fara fram í Buenos Aires í Argentínu 6.–18. október næstkomandi.

Á Ólympíuleikum ungmenna (15–18 ára) er keppt í íþróttagreinum þeirra alþjóðasérsambanda sem eru með keppnisgreinar á Ólympíuleikum. Markmið leikanna er að sameina besta unga íþróttafólk heims í keppni og leik við bestu hugsanlegu aðstæður. Boðið er upp á öfluga kynningu á Ólympíuhugsjóninni og áhersla lögð á að þróa menntun og mat á ólympískum gildum auk þess að ræða um þær ógnanir sem steðja að samfélaginu í dag. Þá er markmiðið að kynna enn frekar íþróttir ungmenna og efla þátttöku í íþróttastarfi á heimsvísu.

Nýkominn af Evrópumótinu

Martin Bjarni Guðmundsson. Mynd: ÖG.

Martin Bjarni er nýkominn heim af Evrópumótinu í áhaldafimleikum en mótið var haldið í Glasgow 9.–12. ágúst sl. „Það var mjög gaman á Evrópumótinu. Ég keppti þar í fjölþraut en komst ekki á pall enda var þetta mjög sterkt mót. Þar voru keppendur frá Rússlandi, Bretlandi og Ítalíu, eða frá öllum þeim bestu í Evrópu. Þetta var kannski ekki alveg mitt besta mót en mjög góð reynsla. Það er alltaf gott að keppa við einhverja sem eru betri en maður sjálfur, það er hægt að læra mikið af þeim“ segir Martin Bjarni.

Martin Bjarni á verðlaunapalli á Norðurlandamóti unglinga.

Vann gullverðlaun í stökki í Þýskalandi
Martin Bjarni keppti á alþjóðlegu móti í Þýskalandi í apríl þar sem keppendur frá 25 þjóðum tóku þátt. Þar átti hann fínt mót og vann m.a. til gullverðlauna í stökki. Hann keppti einnig með unglingalandsliði Íslands á Norðurlandamótinu í áhaldafimleikum í Danmörku um mánaðamótin júní/júlí. Þar keppti hann einnig í fjölþraut og náði mjög góðum árangri. Hann varð í þriðja sæti í fjölþraut auk þess að ná í þrjú brons í úrslitum á einstökum áhöldum þ.e. á gólfi, stökki og svifrá.

Forkeppni í Baku
Martin Bjarni tók þátt í forkeppni fyrir Ólympíuleika ungmenna en mótið fór fram í Baku í Azerbaijan í júní sl. Evrópa á alls 17 sæti í kvennakeppninni í Argentínu og 17 í karlakeppninni. Ísland hafði þegar fengið úthlutað sæti í karlaflokki vegna smæðar landsins en strákarnir þurftu samt að taka þátt í forkeppninni til að virkja sætið og þar með keppa í lokamótinu. Martin var aðeins undir sínu besta á mótinu.

Í unglingalandsliðinu
Martin Bjarni er búinn að vera í unglingalandsliðum Íslands um nokkurt skeið og hefur líka keppt með fullorðins landsliðinu. Hann var valinn til að keppa á Ólympíuleikum ungmenna sem verða haldnir í Argentínu í október. „Þar mun ég keppa í fjölþraut og reyna að komast í fjölþrautarúrslit og úrslit á einstökum áhöldum. Það eru 18 bestu sem komast í fjölþrautaúrslitin. Síðan fara átta bestu í úrslit á hverju áhaldi. Einnig er liðakeppni í fimleikum en þar sem það er bara einn keppandi frá hverju landi verður dregið í lið. Ég get því t.d. lent í liði með Bandaríkjamanni eða Kínverja, það á eftir að koma í ljós“.

Byrjaði 4 ára í fimleikum
Martin Bjarni var 4 ára þegar hann byrjaði af alvöru í fimleikum. Hann hafði eitthvað áður verið í kringum fimleikana en móðir hans Olga Bjarnadóttir þjálfaði fimleika á Selfossi í mörg ár. Foreldrar hans fóru með hann á æfingar í áhaldafimleikum hjá Gerplu í Kópavogi þegar hann var 4 ára. Hann er því búinn að æfa áhaldafimleika í 13 ár. „Ég byrjaði fyrst einu sinni í viku en svo bættust við æfingar jafnt og þétt eftir því sem árin liðu. Núna í sumar hef ég verið að æfa tvisvar á dag þrisvar í viku og einu sinni á dag þrisvar í viku. Á sunnudögum er frí. Martin Bjarni hefur æft mikið undanfarin fimm ár. Oftast þrjá tíma á dag sex sinnum í viku. Undanfarið hef ég æft 3½ til 5 tíma eða þá tvisvar á dag,“ segir Martin Bjarni.

Stefnir á úrslitin
Martin Bjarni var spurður hvort hann ætti sér einhver markmið eða stefnu varðandi fimleikana. „Á Ólympíuleikunum í Argentínu stefni ég á fjölþrautaúrslitin. Vonandi kemst ég líka í úrslit á einhverju áhaldi. Ég hef verið að keppa í unglingaflokki en það fer að styttast í að ég keppi við þá bestu. Það verður held ég bara á næsta ári.“

Líka í handbolta og fótbolta
Martin Bjarni hefur auk fimleika stundað handbolta og fótbolta á Selfossi með góðum árangri. Hann hefur m.a. unnið marga Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum í handbolta og er enn í fótbolta og keppir með 2. flokki Selfoss. Fimleikarnir ganga samt fyrir núna hjá Martin Bjarna þegar hann er að æfa fyrir Ólympíuleikana í Argentínu.