9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Öryggi iðkenda í fyrirrúmi

Öryggi iðkenda í fyrirrúmi

0
Öryggi iðkenda í fyrirrúmi
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Starfshópur mennta- og menningarmálaráðherra, sem skipaður var í kjölfar #églíka-yfirlýsinga íþróttakvenna, hefur skilað ráðherra tillögum um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Tillögur hópsins voru kynntar ríkisstjórn í morgun. Öryggi iðkenda og annarra þátttakenda var sett í öndvegi við alla vinnu hópsins sem taldi mikilvægt að tillögurnar næðu einnig til æskulýðsstarfs utan skóla, m.a. að teknu tilliti til ábyrgðarsviðs ráðuneytisins og samlegðaráhrifa þeirrar starfsemi. Því er einnig fjallað um eineltis- og jafnréttismál í tillögum hópsins.

„Hópurinn skilaði til okkar afar greinargóðu yfirliti og gagnlegum tillögum sem við munum svo vinna með áfram – þetta er brýnt mál sem snertir okkur öll. Samfélagið er að ganga í gegnum vitundarvakningu um málefni sem tengjast kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun. Það er okkar markmið að tryggja að allir njóti verndar í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og að því munum við vinna í góðri samvinnu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Meðal tillagna hópsins eru:

  • Að til staðar sé óháður aðili sem getur tekið við símtölum, tilkynningum eða öðrum samskiptum um ofbeldi og aðra óæskilega hegðun og komið þeim í réttan farveg. Slíkur ráðgjafi gæti einnig leiðbeint við gerð siðareglna og viðbragðsáætlana og sinnt upplýsingagjöf og fræðslu um málefnið.
  • Að skýrir og samhæfðir verkferlar og viðbragðsáætlanir séu til staðar hjá félögum og samtökum í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
  • Að fræðsluefni um kynferðislegt ofbeldi og óæskilega hegðun sé samræmt og að allir sem bera ábyrgð á íþrótta- og æskulýðsstarfi hafi grunnþekkingu á því hvernig bregðast eigi við þegar upp koma mál sem tengjast áreitni eða ofbeldi.
  • Að unnið sé markvisst í jafnréttismálum á vegum íþróttahreyfingarinnar. Aukið jafnrétti getur haft jákvæð áhrif á ýmsa þætti í íþróttastarfi og þar með dregið úr áreitni og ofbeldishegðun.
  • Mikilvægt er að íþróttahreyfingin setji sér siðareglur og hegðunarviðmið, kanni bakgrunn þeirra sem koma að íþróttastarfi og kynni fyrir þeim þær reglur sem gilda í starfinu. Sé vafi til staðar vegna einstaklings sem fyrirhugað er að ráða eða fá til starfa sem sjálfboðaliða er mikilvægt að horfa fyrst og fremst til hagsmuna iðkenda.
  • Að ríki og sveitarfélög sem styðja íþrótta- og æskulýðsstarf með aðstöðu og fjárframlögum setji skilyrði í alla samninga við íþrótta- og æskulýðshreyfinguna að félögin séu með viðbragðsáætlun á þessu sviði og stuðli þannig að aukinni þekkingu, meðvitund og réttum viðbrögðum þegar áreitni eða ofbeldismál koma upp.
  • Að óheimilt verði að ráða til starfa hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum einstaklinga sem hlotið hafa refsidóma fyrir brot sem falla undir kynferðisbrotakafla hegningarlaga. Hliðstæð ákvæði er þegar að finna í æskulýðslögum, grunnskólalögum og barnaverndarlögum. Mikilvægt er að einfalda verkferla fyrir íþrótta- og æskulýðshreyfinguna til þess að afla slíkra upplýsinga frá opinberum aðilum.

Tillögur þessar snerta ýmsa aðila er koma að íþrótta- og æskulýðsstarfi, s.s. íþróttahreyfinguna, æskulýðsfélögin, sveitarfélög og stjórnvöld. Að mati starfshópsins er mikilvægt að þessir aðilar séu samtaka um aðgerðir á þessu sviði. Næstu skref verða að kynna tillögur þessar betur fyrir þeim er málið varðar, svo sem forsvarsmönnum íþróttahreyfingarinnar og á vettvangi sveitarfélaganna.

Starfshópinn skipuðu:
Auður Inga Þorsteinsdóttir, tilnefnd af UMFÍ
Ása Ólafsdóttir, tilnefnd af ÍSÍ
Elísabet Pétursdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti
Guðni Olgeirsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti
Hafdís Inga Hinriksdóttir, tilnefnd af hópi íþróttakvenna
Heiðrún Janusardóttir,  tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Jóna Pálsdóttir tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti
Óskar Þór Ármannsson formaður, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti
Valgerður Þórunn Bjarnadóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti