10 C
Selfoss
Home Fréttir Að vera í takt við samfélagið

Að vera í takt við samfélagið

0
Að vera í takt við samfélagið
Guðmundur Ármann Pétursson.

Fyrir rétt um 12 árum stóð til að byggja 20 þúsund fermetra verslunarmiðstöð rétt utan við Selfoss við gatnamót Suðurlandsvegar og Biskupstungnbrautar. Þá var ýmsum brugðið og miklar áhyggjur voru af því að það myndi gera út af við verslun á Selfossi.  Margir mótmæltu og voru ósáttir við fyrirhugaða framkvæmd og áhrif hennar á þróun verslunar og uppbyggingu miðbæjar á Selfossi.

Nú er hönnun á nýrri brú yfir Ölfusá langt komin, ný staðsetning liggur fyrir og verkefnið komið á samgönguáætlun.  Umferð mun ekki lengur fara í gegnum Selfoss, ekki virðist fólk hafa af því áhyggjur, þvert á móti er mjög þrýst á framkvæmdina.

Þrátt fyrir stundum hæga umferð er gríðarlegur fjöldi fólks sem stoppar á Selfossi, verslar og sækir þar þjónustu.  Fólk stoppar einfaldlega vegna þess að það er á leið í gegnum bæinn.  Á þessum grunni hefur hinn ungi bær Selfoss orðið til sem miðpunktur verslunar og þjónustu.  Bærinn hefur vaxið, dafnað og er í dag höfuðstaður Suðurlands.

Við höfum ótal dæmi þar sem „umferð“ hefur verið beint annað með slæmum afleiðingum fyrir viðkomandi byggð og ekki þekki ég dæmi þess að slíkar breytingar hafi verið til góðs fyrir viðkomandi samfélag.

Mikil má bjartsýnin vera að halda að eftir að fólk hefur keyrt yfir hina nýju Ölfusárbrú, ákveði menn að keyra til baka og í gegnum bæinn til að skreppa í Krónuna og kaupa vistir, fá sér hádegisverð á Kaffi Krús eða að fá sér einn kaffi.  Þó “gamla” Ölfusárbrúin verði á sínum stað mun það væntanlega litlu breyta.  

Held að sama hvaða skoðun menn hafi á tillögu Sigtúns þróunnarfélags á uppbyggingu á miðbæ að þá verði aðdráttarafl hans gagnvart ferðamönnum sem þá ekki lengur keyra í gegnum Selfoss álíka mikið og Skallagrímsgarður er gagnvart þeim sem eiga leið um Borgarnes.

Það er athyglisvert að þrátt fyrir mjög skiptar skoðanir um tillögu að nýjum miðbæ virðist almenn sátt og ánægja með eitt.  Það er endurbygging á gamla mjólkurbúinu.  Er það mögulega vegna þess að það á sér sögu og rætur á Selfossi?  Fæstar aðrar byggingar eiga rætur á Selfossi og um þær er ágreiningur.  Stundum er ágætt að hlusta, vera meðvitaður um ræturnar og að haga uppbyggingu í takt við umhverfi og aðstæður.  

Selfoss hefur byggst upp sem miðstöð þjónustu vegna þess að bærinn er í alfaraleið og í gegnum hann er ekið.  Það á að vera spennandi verkefni að leysa úr þeim umferðarþunga sem stundum er í kringum Selfoss, en ekki afsökun fyrir uppgjöf sem kippa mun fótunum undan öflugri verslun og þjónustu á Selfossi.

Uppbygging á miðbæjarreit í hjarta Selfoss er löngu tímabær og um uppbyggingu virðist almenn sátt.  Klárlega verður í uppbyggingu farið.  Það er aðeins ein spurning núna og hún er hvort að tillaga Sigtúns þróunnarfélags að nýjum miðbæ eigi að verða að veruleika.

Tillaga sem á ekki rætur í samfélaginu og er ekki í takt við þróun þess mun seint verða til blessunar og er þá sama hvort átt er við tillögu að nýjum miðbæ eða tillögu að nýrri staðsetningu fyrir Ölfusárbrú.

 

 

Höfundur er íbúi í Árborg