Hannyrðahornið

Míra sólskinsstelpa

Míra Sólskinsstelpa

Tuskudýr njóta mikilla vinsælda hjá yngstu kynslóðinni og það er gaman að leika sér að því að hekla þau. Í dag birtum við uppskrift að fígúru sem við köllum Míru og hún mælist 40 sm frá eyrnatoppi að tá. Míra er hekluð úr Cotton fun, sem er mött, mjúk bómull, þannig að skella má henni í þvottavél þegar hún verður klístruð. Það er auðvelt að hekla svona fígúrur og þær mega alveg vera svolítið skakkar með persónulegan svip.

Efni:

Cotton fun, 1 dk rjómahvít og 1 dk gul, afgangar af appelsínugulu bómullargarni og gráu. 60 gr af tróði. Heklunál no 2,5. Prjónamerki.

 

Uppskrift:

Míra er hekluð í nokkrum hlutum sem loks eru saumaðir saman.

Fætur: Heklið með gulu garni, 6 ll og tengið saman í hring.

1.umf. Heklið 10 fl utan um hringinn.

2.umf. Heklið 2 fl í hverja fl (alls 20 fl).

3.umf. Heklið í fl fyrri umferðar til skiptis *2 fl og 1 fl* út umf. (alls 30 fl).

4.-7.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

8.umf. Skiptið yfir í hvítt garn og heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

9.umf. Heklið *4 fl, 2 fl saman* út umf. (alls 25 fl).

10.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

11.umf. Heklið *3 fl, 2 fl saman* út umf. (alls 20 fl).

12.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

13.umf. Heklið *2 fl, 2 fl saman* út umf. (alls 15 fl).

14.-40.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

Skiljið eftir góðan enda, klippið frá og heklið annan fót eins.

Hendur: Heklið með gulu garni, 5 ll og tengið saman í hring.

1.umf. Heklið 8 fl utan um hringinn.

2.umf. Heklið 2 fl í hverja fl (alls 16 fl).

3.umf. Heklið í fl fyrri umferðar til skiptis *2 fl og 1 fl* út umf. (alls 24 fl).

4.-6.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

7.umf. Skiptið yfir í hvítt garn og heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

8.umf. Heklið *4 fl, 2 fl saman* út umf. (alls 20 fl).

9.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

10.umf. Heklið *3 fl, 2 fl saman* út umf. (alls 16 fl).

11.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

12.umf. Heklið *2 fl, 2 fl saman* út umf. (alls 12 fl).

13.-25.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

Skiljið eftir góðan enda, klippið frá og heklið aðra hönd eins.

Eyru: Heklið með gulu garni, 10 ll.

1.umf. Heklið 1 fl í hverja ll (alls 10 fl).

2.-5.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

6.umf. Heklið 2 fl í fyrstu fl, 1 fl í næstu 8 fl, 2 fl í síðustu fl (alls 12 fl).

7.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

8.umf. Eins og 6.umf. (alls 14 fl)

9.-13.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

14.umf. Heklið 2 fl saman, 1 fl í næstu 10 fl, 2 fl saman (alls 12 fl).

15.umf. Heklið 2 fl saman, 1 fl í næstu 8 fl, 2 fl saman (alls 10 fl).

Heklið saman áfram á þennan hátt þar til 1 l er eftir, dragið garnið í gegn, klippið frá og heklið annað eyra eins.

Skott: Heklið með gulu garni 40 ll.

1-2.umf. Heklið 1 fl í hverja ll (alls 40 fl).

3.umf. Heklið *3 ll, snúið stykkinu, hoppið yfir 1 fl, 1 kl í næstu fl.* (þannig myndast eins konar gormur) endurtakið út umf. Skiljið eftir góðan enda, klippið frá.

Augu: Heklið með gulu garni 5 ll og tengið í hring.

1.umf. Heklið 10 fl utan um hringinn.

2.umf. Heklið *2 fl í fyrstu 3 fl fyrri umf., 1 fl í næstu 2 fl* endurtakið * * út umf. (alls 16 fl).

3.umf. Heklið 1 fl, 2 fl í næstu 4 fl, 1 fl í næstu 4 fl, 2 fl í næstu 4 fl, 1 fl í síðstu 3 fl (alls 24 fl). Skiljið eftir góðan enda, klippið frá og heklið annað auga eins.

Búkur: Heklað er með hvítu garni, fyrstu 3 umf.eru eins og á augunum.

4.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf. 3 sinnum, 2 fl í næstu 4 fl, 1 fl í næstu 8 fl, 2 fl í næstu 4 fl, 5 fl. (alls 32 fl).

5.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf. 3 sinnum, 2 fl í næstu 4 fl, 1 fl í næstu 12 fl, 2 fl í næstu 4 fl, 9 fl. (alls 40 fl).

6.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf. 5 sinnum, 2 fl í næstu 4 fl, 1 fl í næstu 16 fl, 2 fl í næstu 4 fl, 9 fl. (alls 48 fl).

7.-8.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

9.umf. Heklið *1 fl í hverja fl fyrri umf. 5 sinnum, 2 fl í næstu fl* endurtakið * * út umf. (alls 56 fl).

10.-11.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

12.umf. Heklið *1 fl í hverja fl fyrri umf. 7 sinnum, 2 fl í næstu fl* endurtakið * * út umf. (alls 64 fl).

13.-14.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

Setjið nú prjónamerki utan um 13 og 45 l (skilja að bak- og framhluta).

15.umf. Heklið * 2 fl, 2 fl saman* 4 sinnum, 1 fl í næstu 32 fl, *2 fl saman, 2 fl* 4 sinnum. (alls 56 fl).

16.umf. Heklið 1 fl í hverja fl 7 sinnum, 2 fl saman tvisvar, 28 fl, 2 fl saman tvisvar, 1 fl í hverja fl 13 sinnum. (alls 52 fl).

17.umf. Heklið 1 fl í hverja fl 6 sinnum, 2 fl saman tvisvar, 26 fl, 2 fl saman tvisvar, 1 fl í hverja fl 8 sinnum. (alls 48 fl).

18.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

19.umf. Heklið 1 fl í hverja fl 5 sinnum, 2 fl saman tvisvar, 24 fl, 2 fl saman tvisvar, 1 fl í hverja fl 7 sinnum. (alls 44 fl).

20.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

21.umf Heklið 1 fl í hverja fl 4 sinnum, 2 fl saman tvisvar, 22 fl, 2 fl saman tvisvar, 1 fl í hverja fl 6 sinnum. (alls 40 fl).

22.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

23.umf Heklið 1 fl í hverja fl 3 sinnum, 2 fl saman tvisvar, 20 fl, 2 fl saman tvisvar, 1 fl í hverja fl 5 sinnum. (alls 36 fl).

Hér er gott að gera hlé á heklinu og byrja að sauma einstaka hluta fasta. Munið að festa hlutana vel og ganga mjög vel frá öllum endum. Setjið tróð í fætur og hendur, saumið fæturna við búkinn, neðarlega, rétt framan við miðju (þannig verður auðveldara að fá Míru til að sitja). Festið augun ofarlega á búkinn. Saumið hring um miðju augnanna með gráu garni. Saumið skottið á rétt neðan við mitt bak. Saumið munn og nef á miðjan búk. Festið hendur rétt ofan við augun. Setjið tróð inn í búkinn, gott er að fylla hann vel áður en lokið er við að hekla.

24.umf. Heklið 1 fl í hverja fl fyrri umf.

25-27.umf. Heklið 2 fl saman út umferðina. Klippið frá, dragið garnið í gegnum lykkjurnar sem eftir eru og gangið frá endanum.

Brjótið neðsta hluta hvors eyra saman og festið efst á hvirfil Míru. Saumið augnhár með gráum lit.

Uppskrift:

Þóra Þórarinsdóttir