„Við hjá MS höfum lengi velt fyrir okkur möguleikum til þess að kynna almenningi á Íslandi og erlendum gestum sögu og þróun mjólkuriðnaðarins með sérstaki áherslu á skyrið“, segir Ari Edwald, forstjóri MS. „Við fengum því strax áhuga á því að áform um endurreisn Gamla mjólkurbúsins í nýjum miðbæ á Selfossi næðu fram að ganga. Því auðvitað geta Selfoss og Árborg talist vera vagga íslensks mjólkuriðnaðar eins og hann er í nútímanum og því kjörinn staður fyrir alþjóðlegt heimili skyrsins.“
Traustur grundvöllur
Gamla mjólkurbúið var lengi eitt megineinkenni þéttbýlisins sem myndaðist við Ölfusárbrú í tengslum við verslunarrekstur og mjólkurvinnslu. „Húsið varð að víkja fyrir nýju búi og það skyldi eftir sár og eftirsjá í hugum fjölmargra. Ég held að þetta sé eina húsið sem Guðjón Samúelsson húsameistari teiknaði sem ekki stendur lengur“, segir Ari. „Þetta er gullfallegt hús sem nákvæmar teikningar eru til af og því sómi að því ef það rís á ný og mætir öllum sem koma á Selfoss. Á þeim stað sem því er ætlaður verður það umkringt húsum sem tengjast upphafssögu Selfoss, meðal annars húsinu Sigtúni, þar sem kaupfélagsrekstur hófst.“
Allt frá hausti 2015 hefur verið unnið að verkefninu í samræmi við sameiginlega viljayfirlýsingu stjórnar MS og Sigtúns þróunarfélags.
„Við höfum alla trú á þessu verkefni og teljum að það sé traustur grundvöllur fyrir rekstri í húsinu“, segir Ari.
Sigtún þróunarfélag fjármagnar og reisir húsið en MS leggur fram fjármuni til þróunar á sýningu og hönnunar á markaðs- og sýningarrými. Einnig tryggir MS leigugreiðslur til ákveðins tíma fyrir hluta hússins. Að öðru leyti verður um sjálfstæðan rekstur að ræða sem MS mun ekki koma að nema með fulltrúum í ráðgjafaráði.
Alþjóðlegur sýningargluggi
„Við höfum gengið til samstarfs við sýninga- og upplifunarhönnuðina hjá Gagarín sem þekktir eru fyrir hönnun vinsælla alþjóðlegra sýninga. Heimamenn á Selfossi hafa einnig haldið vel til haga margvíslegum fróðleik um starfsemi Mjólkurbús Flóamanna. Meiningin er að gestir gangi inn í skyrheima þar sem þeir komast í snertingu við sögu hvíta matarins, sem hélt lífinu í Íslendingum frá landnámi, kynnist matarhefðum frá þjóðveldiseldhúsinu og fram á okkar daga og fái að smakka skyr í ýmsum myndum. Í húsinu er áformað að verði Ísey skyrbar sem er þróunarverkefni sem MS á aðild að og þar verður meðal annars hægt að fá fjölbreytt úrval af smúðingi eða smúþí.
Ég vek líka athygli á því að fyrirhugað er að í Gamla mjólkurbúinu verði mathöll þar sem áhersla verður lögð á sunnlenskar landbúnaðarafurðir. Þetta verður því ekki aðeins sýningargluggi fyrir skyrið heldur landbúnaðarvörur í heild sinni. Matarsagan endurspeglar sögu þjóðarinnar og eins og við sjáum í þeim ágætu sýningum og söfnum sem sett hafa verið upp á síðustu árum hafa ferðalangar, hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir, mikinn áhuga á góðum sögum sem eru vel sviðsettar og sagðar. Ég tel því að þetta sé gott tækifæri að byggja upp þróttmikinn rekstur í Árborg.“
Heimilisfesti fyrir þekkingarútflutning
Ari segir að það hafi lengi vakað fyrir MS að skapa einhverskonar heimilisfesti fyrir skyrið á Íslandi sem akkeri í þekkingarútflutningi á alþjóðlegan markað. Það er liður í langtímahugsun í markaðssókn sem byggir á vel skilgreindu vörmerki og heildarhugsun. Þar kemur skyrsetrið á Selfossi inn í myndina til þess að styrkja söguna að baki vörumerkinu.
MS hefur hafið skyrútflutning í stórum stíl eins og kunnugt er. Vörur eru fluttar út beint til landa eins og Bretlands og Sviss. Þá hafa verið gerðir samningar við danskt og norskt fyrirtæki um framleiðslu og sölu á skyri í Danmörku og Noregi. Þriðja módelið er að kaupa skyr af Thise, samstarfsaðila MS í Danmörku og selja það áfram. Það hefur gefist vel í Finnlandi og slíkt samstarf er hafið í Hollandi, Belgíu, Lúxemborg, Frakklandi og ítalíu. Einnig hefur verið efnt til samstarfs upp á eignarhlut eins og t.d. í Bandaríkjunum.
Ísey skyr lykill að hraðri sókn
Þann fyrsta júlí tók til starfa nýtt dótturfélag MS , Ísey Export, um sölu á skyri á erlendum markaði. Stefnt er að því að stórauka þessi umsvif á næstu árum. Með nýrri nálgun á að sækja hraðar á nýja markaði. Fyrirkomulagið við sölu á skyri á mörkuðum utan helstu grannlanda mun framvegis felast í gerð vörumerkjasamninga um sölu á Ísey skyri.Þessi leið skapar möguleika til að nýta þekkingu sem byggst hefur upp í ísleskum landbúnaði til að skapa tekjur um allan heim.
„Við erum nú í 15 löndum. Við höfum haft markmið um að vera í 22 löndum að fjórum, fimm árum liðnum. Ég býst hins vegar við að hjólin muni snúast hraðar ef eitthvað er. Í raun gætu öll heimsins lönd verið undir.“ segir Ari. „Það er í þessu samhengi sem við höfum áhuga á að skapa íslenska skyrinu alþjóðlegt heimili á Selfossi.“