4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Af vettvangi – í verkahring

Af vettvangi – í verkahring

0
Af vettvangi – í verkahring
Bjarni Þorkelsson.

Undirrritaður sótti aukaaðalfund SASS í Vestmannaeyjum þann 27.06.2018, þar sem ný stjórn og kjörnefnd samtakanna var kosin í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna í vor. Þetta var prýðilegur fundur og fróðlegur, þótt tímaskortur setti nokkurn svip á; þannig urðu sum kynningarerindin endasleppari en til hafði staðið, því ekki beið Herjólfur eftir að ræðumenn lykju sér af. En hvað rekur óbreyttan fundarmann til þess að lemja sitt lyklaborð og segja frá tíðindum? Og svarið er: Málflutningur fundarmanna á fullt erindi við lesendur Dagskrárinnar – og fróðleiksþyrstir lesendur eiga skilið að fá slíka þjónustu. Þótt hér sé tæpt á mörgu sem fram fór á fundinum, er fjarri því að hér sé gerð nægilega góð grein fyrir því öllu. Það sem missagt kann að vera hér, verður og að skrifa á takmarkanir undirritaðs, sem ritaði uppúr sér eftir minnispunktum.

Skýrsla stjórnar
Gunnar Þorgeirsson, fráfarandi formaður SASS og oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, flutti yfirlit um störf stjórnarinnar á næstliðnu ári, jafnframt því að fara vandlega yfir tilgang og tilverurétt samtakanna. Í máli Gunnars kom fram einlæg trú á hvorttveggja og óspar var hann á hvatningu til sveitarstjórnarmanna, einkum þeirra sem koma nú nýir til sögunnar, að kynna sér vel stefnu og störf SASS og nýta þau tækifæri sem samtakamátturinn færir sunnlenskum sveitarfélögum. Bjartsýni og sóknarhugur einkenndi yfirlitsræðu hans – sem var eins konar kveðjuræða, eins og glöggt kom fram við lok fundarins, er hann var kvaddur og hylltur eins og vert var af öðrum stjórnarmönnum, samstarfsfólki og öllum þingheimi, eftir langa og farsæla stjórnarsetu og formennsku.

Gunnar kynnti líka Sóknaráætlun fyrir Suðurland 2018. Hann vakti athygli á því að lagalega stöðu landshlutasamtaka á borð við SASS þyrfti að skýra – í raun væri engin lagaleg stoð fyrir starfsemi samtakanna eins og málum er nú komið, grundvöllur þeirra væri einungis á borð við það sem gerist meðal frjálsra félagasamtaka með enga skylduaðild eða raunverulega ábyrgð. Þá sagði Gunnar frá Byggðaáætlun, sem hefur verið samþykkt og fjármögnuð af Alþingi – já fjármögnuð sagði þar, og það er meira en tíðkast hefur til þessa.

Markaðsmál
Laufey Guðmundsdóttir frá Markaðsstofu Suðurlands flutti nú góða tölu, þar sem meginþemað var samspil þriggja meginþátta: Samfélags, náttúru og ferðaþjónustu. Þessa þætti yrði að stilla saman á réttan hátt til að ná ásættanlegum árangri í markaðsmálum.

Skipulagsgerð og umhverfismat
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra var sérstakur gestur fundarins. Honum varð tíðrætt um skipulagsgerð; sagði að þrátt fyrir að almenningur væri óspart hvattur til þátttöku á fyrri stigum í skipulagsferlinu, gengi það ekki nægilega vel eftir. Taldi hann að hér þyrfti að koma til hugarfarsbreyting fremur en lagabreytingar. Fyrirtæki og stjórnvöld þyrftu að leggja allt kapp á að kynna betur og auglýsa fyrirætlanir sínar. Þannig væri oftar hægt að ná góðri lendingu í viðkvæmum málum. Í þessu skyni væri hentugt að hafa sameiginlegan og aðgengilegan gagnagrunn, það hjálpaði til að skapa sátt um skipulag og framkvæmdir og tryggði betur lýðræði og skilvirkni. Í framhaldi af þessu boðaði ráðherra opinn hugarflugsfund um endurskoðun laga um umhverfismat framkvæmda – og færi fram í ágúst.

En hvernig má einfalda aðkomu almennings og félagasamtaka og tryggja betur að tekið sé tillit til umsagna hans? Jú, með því að útvíkka kæruréttinn og gera hann mögulegan á fyrri stigum í ferlinu. Til þess þarf að breyta leikreglunum.

Það kom glöggt fram í máli umhverfisráðherra að einskis má láta ófreistað til að skapa traust. Er ekki réttara, spurði hann, að óháðir aðilar vinni að umhverfismati framkvæmda, í stað þess að þeir séu á snærum framkvæmdaaðilanna, eins og nú er alsiða? Spurningin svarar sér sjálf, en eftir stendur að sá sem borgar brúsann af umhverfismati er ævinlega sá sem fyrir framkvæmdunum stendur.

Friðlýsingar og þjóðgarðar
Þessu næst talaði umhverfisráðherra langt mál um friðlýsingar og efnahagsleg tækifæri sem þeim tengjast, m.a. með vísan í fyrirhugaða stofnun Miðhálendisþjóðgarðs. Ráðherra vitnaði í rannsóknir sem leiddu í ljós að skipulag sem miðar að því að vernda náttúru, skilar góðum tekjum; meiri en af öðrum landnotum væri að vænta. Hann lýsti vilja sínum til að láta fara fram mat á efnahagsáhrifum friðlýstra svæða hér á landi, og sömuleiðis að telja gestina sem slíka staði sækja.

Ráðherra var nú spurður gagnrýnna spurninga um stofnun Miðhálendisþjóðgarðs, og vísaði fyrirspyrjandi í ofstækisfull fordæmi frá fyrri tíð – t.d. í Vatnajökulsþjóðgarði gagnvart útivistarhópum og ferðafélögum. Undirrituðum varð hugsað til stofnunar þjóðgarðsins á Þingvöllum – að þar hafi um sumt verið farið fram meira af kappi en forsjá, er bændur voru flæmdir af jörðum sínum í friðunarákafanum. Í fyrirspurnum komu líka fram rökstuddar áhyggjur af sambands- og samtalsleysi ríkisvaldsins við sveitarfélögin sem land eiga að fyrirhugaða þjóðgarðinum, sveitarfélögin sem hafa þó óumdeilanlega skipulagsvald yfir hálendinu. Sagði fyrirspyrjandi að enn væri umræðan um Miðhálendisþjóðgarð á forsendum þeirra sem búa í 101 Reykjavík og telja að þar sé nafli alheimsins!

Ráðherra svaraði þessu síðasta ekki af neinni alvöru, en benti á að hugmyndir um friðlýst svæði og þjóðgarða tæki stöðugum breytingum, og unnt væri að sækja fyrirmyndir um slíka friðun um víða veröld. Auðvelt væri að skipta friðlýstu svæði eða þjóðgarði upp í ,,hólf“ sem væru á mismunandi friðunarstigi – eitt hólfið nyti kannski algerrar friðunar og umferðarbanns, meðan beitarnýting og/eða umferðarfrelsi gilti í öðru.

Dulmál eða skrauthvörf?
Margt fleira væri þarflegt að tína hér til af því sem fram kom á þessum SASS-fundi. Í kynningu og umræðum um ársreikninginn kom fram að taprekstur samtakanna er óásættanlegur – og langhelsta ástæðan fyrir honum eru hið þarfa framtak: Almenningssamgöngur, öðru nafni STRÆTÓ. Ég get ekki skilið svo við þessa umfjöllun að ég nefni ekki hugleiðingu Aldísar Hafsteinsdóttur um ,,eflingu sveitarstjórnarstigsins“ sem stjórnvöldum væri tíðrætt um. Þetta er dulmál, sagði Aldís, og þýðir í munni stjórnvalda fækkun sveitarfélaga. Nú er slík fækkun boðuð, hún á að fara fram í áföngum, en einhliða og án kosninga í sveitarfélögunum. Taldi Aldís einboðið að allar sveitarstjórnir komi rækilega undirbúnar um þessi mál á ársfund Sambands íslenskra sveitarfélaga í haust, með skýra stefnu í farteskinu um ,,eflingu sveitarstjórnarstigsins“ – því þar verði teknar ákvarðanir sem gilda muni út kjörtímabilið, án endurskoðunar – hvað sem á dynur!

Að lokum
Nýr formaður SASS var kjörinn á þessum aukaaðalfundi: Eva Björk Harðardóttir oddviti Skaftárhrepps. Varaformaður var kjörinn Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggðar. Í þakkarávarpi fórust nýja formanninum vel orð og lagði áherslu á hlutverk sveitarstjórnarmanna: Að standa vörð um sveitarfélögin og verkahring þeirra í bráð og lengd – og svara því hver fyrir sig og sameiginlega hvort vilji stendur til þess að taka upp þriðja stjórnsýslustigið.

Bjarni Þorkelsson, einn fundarmanna.

P.s. Eftir að hafa ritað þessa grein hlustaði ég á erindi Ingunnar Jónsdóttur um Fagháskólanám í hagnýtum leikskólafræðum, sem gera átti grein fyrir á fundinum en tími vannst ekki til. Í þessu merka framtaki – sem SASS á aðild að – felast stór tækifæri fyrir sunnlensk sveitarfélög til að ráða bót á tilfinnanlegum skorti á menntuðum leikskólakennurum. BÞ.