7.3 C
Selfoss

Tónleikar að Kvoslæk í Fljótshlíð

Vinsælast

Tónleikarnir Síðasta lag fyrir fréttir verða haldnir að Kvoslæk í Fljótshlíð laugardaginn 30. júní næstkomandi kl. 20:30. Á tónleikunum koma fram Aðalheiður Margrét Gunnarsdóttir, mezzosópran, Þóra Svanborg Guðmannsdóttir, sópran, Glódís Margrét Guðmundsdóttir, píanó og Eyrún Anita Guðnadóttir, harmonikka. Tónleikarnir njóta stuðning frá SASS og FÍH.

Aðalheiður býr á Kirkjulæk í Fljótshlíð. Hún stundaði tónlistarnám við Tónlistarskóla Kópavogs undir handleiðslu Önnu Júlíönu Sveinsdóttur. Dvaldi í Svíþjóð og nam söng í einkatímum og stjórnaði kór Íslendinga í Stokkhólmi. Lauk BA námi í tónlistarkennslu frá Listaháskóla Íslands, og síðar söngkennararéttindum við Söngskólann í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í námskeiðum í söng og skapandi tónlistarmiðlun. Hefur sungið í kórum til fjölda ára, t.d. með Kór íslensku óperunnar og tók m.a þátt í Brottnáminu úr kvennabúrinu, Cavalleria Rusticana og Pagliacci. Aðalheiður hefur reynslu af popptónlist, hljómsveitarvinnu og komið víða fram. Þá hefur hún kennt tónmennt, stjórnað barnakórum, sett upp söngleikjasýningar og kennt í forskóla. Í dag starfar hún sem söng- og píanókennari auk annarra greina í Tónlistarskóla Rangæinga.

Þóra er fædd og uppalin í Reykjavík. 17 ára gömul hóf hún nám við Söngskólann í Reykjavík og voru Dóra Reyndal söngkona og Ólafur Vignir Albertsson píanóleikari helstu kennarar hennar. Þóra lauk einsöngsprófi frá Söngskólanum árið 2003 og söngkennaraprófi árið 2007.  Þóra hefur tekið þátt í námskeiðum bæði hér á landi og erlendis t.d. í Nice í Frakklandi, með Metropolitan óperukórnum í New York og sótti einkatíma hjá Pr. Lorrain Nubar í New York.
Þóra söng í Kór Langholtskirkju og kom einnig fram sem einsöngvari með kórnum. Hún var búsett í Bandaríkjunum í nokkur á og kom þá fram með Sinfóníuhljómsveit og kór Gwinnett-borgar. Söng hún m. a. Memorial tileinkað árásunum á tvíburaturnanna í New York og 9. sinfóníu Beethovens. Árin 2009-2013 stundaði hún einnig kennslu í söng og píanóleik í Lilburn, Georgia. Hún stundar nú leikskólakennaranám við Háskóla Íslands og mun útskrifast þaðan á komandi ári.

Glódís er búsett í Þykkvabænum. Hún hóf píanónám 8 ára hjá Önnu Magnúsdóttur við Tónlistarskóla Rangæinga. 10 ára tók Hédi Maróti við sem kennari hennar og lauk Glódís burtfararpróf frá skólanum undir hennar leiðsögn árið 2010. Sama ár hóf hún nám í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist með B. Mus. gráðu í klassískum píanóleik vorið 2014 með hæstu einkunn. Kennarar hennar voru Peter Máté og Nína Margrét Grímsdóttir en hún hefur einnig sótt námskeið hjá Halldóri Haraldssyni, Albert Mamriev og Víkingi Heiðari Ólafssyni. Glódís hefur kennt við Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Tónlistarskóla Kópavogs. Síðastliðinn vetur kenndi hún við Tónlistarskóla Árnesinga. Einnig hefur Glódís verið meðleikari með fjölmörgum kórum og lært kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar. Glódís hefur tekið þátt í mörgum tónlistarhátíðum m.a. Casalmaggiore Music Festival á Ítalíu, Píanókeppni Norðurlandanna í Danmörku og Alþjóðlegu Tónlistarakademíunni í Hörpu.

Eyrún er fædd og uppalin í Fljótshlíðinni. Hún hóf nám á harmonikku fimm ára gömul hjá Grétari Geirssyni við Tónlistarskóla Rangæinga, á unglingsárum fluttist fjölskylda hennar til Stykkishólms, þar stundaði hún nám á harmonikku í nokkur ár hjá Hafsteini Sigurðssyni. Síðar hóf hún nám við Háskóla Íslands, þaðan útskrifaðist hún með BS í jarðfræði árið 2009. Eftir fimm ára búsetu erlendis lá leiðin aftur til Íslands með stækkandi fjölskyldu, mann og tvö börn. Þegar hér var komið við sögu hafði harmonikkan legið á hillunni í þó nokkur ár, en undir niðri blundaði alltaf áhuginn sem braust út síðastliðinn vetur er rykið var dustað af nikkunni og hún hóf aftur nám hjá Grétari Geirssyni við Tónlistarskóla Rangæinga. Í dag starfar Eyrún á Hótel Rangá og er búsett með fjölskyldu sinni á Hvolsvelli.

Fleiri viðburðir verða að Kvoslæk í sumar
Laugardaginn 28. júlí kl. 15.00 mun Sveinn Yngvi Egilsson flytja fyrirlestur í tengslum við 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Fyrirlesturinn nefnist Vinagleði og fjallar um félagslega þýðingu bókmennta í þjóðernislegu samhengi.

Laugardaginn 18. ágúst kl. 15.00 verða tónleikar sem nefnast Bræðralög. Á þeim munu bræðurnir Bjarni og Einar Þór Guðmundssynir syngja íslensk einsöngslög og dúetta við undirleik Guðjóns Halldórs Óskarssonar. Harmonikkuleikur verður fyrir tónleikana.

Nýjar fréttir