5.6 C
Selfoss

Lærum allt lífið

Vinsælast

Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi hefur á undanförnum vikum útskrifað 114 einstaklinga af sjö námsbrautum og úr raunfærnimati í nokkrum greinum. Námið spannar yfir mismunandi langan tíma, allt frá tveggja ára námi með starfi og yfir í styttri námsbrautir.

Stærsta útskriftin fór fram við hátíðlega athöfn á Hótel Selfossi 31. maí sl. en áður höfðu hópar verið útskrifaðir á Höfn, Kirkjubæjarklaustri, í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn, enda búa námsmenn Fræðslunetsins um allt Suðurland.

Ein af þeim námsbrautum sem voru í boði hjá Fræðslunetinu nú á vorönninni er Kvikmyndasmiðja en það er 120 stunda nám skv. vottaðri námsskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífins sem hægt er að meta til eininga. Í smiðjum af þessu tagi er lögð áhersla á nám til að skipuleggja, undirbúa, vinna og skila verki sem er starf eða hluti starfs á vinnumarkaði. Námið er að stærstum hluta verklegt og felst í því að fá innsýn í þau störf sem tengjast kvikmyndagerð, eins og handritsgerð, tökum, klippingu og hljóðvinnslu. Rauði þráðurinn í náminu var gerð stuttmyndar þar sem námsmenn tóku þátt í öllu ferlinu; undirbúningi, sáu um leik, alla framkvæmd og eftirvinnslu. Námið fór fram á nokkrum stöðum; í húsnæði Fræðslunetsins, á tökustöðum í Hveragerði og á Stokkseyri og í Stúdíó Sýrlandi í Reykjavík. Smiðjan er samstarfsverkefni Fræðslunetsins og Stúdíó Sýrlands en allir leiðbeinendur eru á vegum þeirra og menntaðir í þeim störfum sem tengjast kvikmyndagerð. Stuttmyndirnar voru svo sýndar í Bíóhúsinu fyrir skömmu en tvær útgáfur af myndinni voru full-unnar og hljóðsettar af hópnum en þær þóttu mjög góðar og áhrifaríkar. Það er frábært að fá tækifæri til að sjá afurð af svona verkefni í bestu mögulegu gæðum og færir starfsfólk Fræðslunetsins þeim í Bíóhúsinu bestu þakkir fyrir að koma að þessu með okkur.

Við hjá Fræðslunetinu erum stolt fyrir hönd allra okkar námsmanna og óskum þeim til hamingju með árangurinn. Lærum allt lífið!

Sandra D. Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Fræðslunetinu – símenntun á Suðurlandi.

Nýjar fréttir