4.5 C
Selfoss

Margt nýtt verður á Unglingalandsmótinu í Þorlákshöfn

Vinsælast

Undirbúningur fyrir Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina hefur gengið vel. Mótið var haldið í Þorlákshöfn árið 2008 og er þetta því í annað skipti sem mótið er haldið þar.

„Hér er fólk sem kann til verka og það er mjög gaman að sjá þegar fólk er að vinna vinnuna sína,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri mótsins. „Við erum búin að leggja allar stóru línurnar og dagskráin er í raun og veru komin. Við erum með frábær íþróttamannvirki og frábæra aðstöðu til að taka á móti fólki. Við erum líka mjög vel staðsett með þetta mót gagnvart þessum þéttbýliskjörnum í kringum okkur.“

Ómar segir að mótið sé mjög spennandi. Búið sé að vinna að þessum hefðbundnu greinum en svo komi alltaf nýjar og nýjar greinar á hverjum stað og það verði í Þorlákshöfn líka.

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ í Þorlákshöfn 2018.

„Við erum komin með öfluga sérgreinastjóra í allar greinar. Dagskráin liggur fyrir og við bíðum bara eftir að taka á móti fólki. Það stefnir allt í að þetta verði mjög flott mót. Við erum með þessar hefðbundnu greinar en erum alltaf að reyna að gera eitthvað nýtt og hugsa út fyrir kassann. Núna erum við með ýmislegt nýtt sem við höfum verið að byggja upp, ekki bara fyrir þetta mót heldur næstu Unglingalandsmót. Við höfum verið að fjárfesta í alls konar búnaði og tækjum eða hreyfistöðvum þar sem ungir sem aldnir geta leikið sér eða hreyft sig, tekið þátt í verkefnum. Sum eru í raun sjálfbær þ.e. það þarf ekki að fylgjast með þeim, fólk stýrir því sjálft. Ég held að það verði mjög skemmtilegt. Við erum að stytta aðeins keppnisgreinarnar svo þær séu ekki alveg til kvölds. Við byrjum líka aðeins seinna á morgnana og endum fyrr. Þannig gefum við krökkunum tækifæri til að fara í nýja greinar. Líka greinar sem fjölskyldan getur tekið þátt í saman. Þannig verðu meiri fókus á fjölskylduna og samveruna, ekki bara þessar hefðbundnu keppnisgreinar, heldur að geta gert eitthvað skemmtilegt saman,“ segir Ómar Bragi.

 

Nýjar fréttir