4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Fékk 230.000 kr. sekt fyrir að aka of hratt

Fékk 230.000 kr. sekt fyrir að aka of hratt

0
Fékk 230.000 kr. sekt fyrir að aka of hratt

Alls voru 35 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku. Ein þeirra, bandarísk kona sem er hér á ferðalagi, var stöðvuð við Gígjukvísl á 156 km/klst hraða þar sem leyfður hraði er 90 km/klst. Hún var svipt ökurétti í tvo mánuði og sektuð um 230 þúsund krónur. Gerði hún sektina strax upp og fékk því 25% afslátt af henni eins og reglur segja til um þegar að umferðarlagabrotum kemur.

Laugardaginn 2. júní voru tveir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum áfengis við akstur bifreiða sinna. Annar á Selfossi en hinn á Hellu.

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur bifreiða sinna. Einn fyrir að nota farsíma án handfráls búnaðar og einn fyrir að aka sviptur ökuréttindum. Skráningarnúmer vöru tekin af fjórum bifreiðum þar sem þær reyndust ótryggðar í umferðinni.

Fimm sinnum í liðinni viku var lögreglu tilkynnt um laus hross á eða við vegi í umdæminu. Í öllum tilfellum var haft samband við eigendur eða umráðamenn og brugðust þeir vel við og komu hrossunum í skjól. Þá bárust nokkrar tilkynningar um sauðfé við vegi og ljóst er að búfjáreigendur þurfa að taka sig á í vörslu húsdýra sinna.

Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.