6.1 C
Selfoss
Home Fréttir Hvernig Hveragerði vilt þú búa í?

Hvernig Hveragerði vilt þú búa í?

0
Hvernig Hveragerði vilt þú búa í?
Njörður Sigurðsson.
Þórunn Pétursdóttir.

Það er gott að búa í Hveragerði. Hér er fjölbreytt mannlíf; listamenn á heimsmælikvarða, vel mannaðir leikskólar og grunnskóli, ágætt íþrótta- og tómstundastarf, framúrskarandi þjónusta við eldri borgara, góðar sundlaugar og dásamlegt umhverfi.

Úthverfi Reykjavíkur eða öflugt bæjarfélag?
Rekstur Hveragerðisbæjar er á ágætu róli, en margt má þó gera öðruvísi og betur. Verulegur fjöldi íbúa Hveragerðis sækir vinnu annað, sem gerir það að verkum að bærinn okkar er „svefnbær“ í vissum skilningi. Sumir eru ánægðir með að Hveragerði sé þannig orðið úthverfi höfuðborgarinnar, en við í Okkar Hveragerði teljum það ekki ásættanlegt og viljum sjá bæinn vakna til lífs á nýjan leik.

Hvernig vekjum við Hveragerði?
Í Hveragerði er frjór jarðvegur fyrir kraftmikla atvinnuuppbyggingu sem getur meðal annars byggt á nýtingu auðlinda bæjarins til fjölbreyttrar nýsköpunar. Til dæmis munu endurnýjanlegir orkugjafar og minni verðmætasóun keyra græn hagkerfi morgundagsins áfram, til að draga sem mest úr áhrifum loftslagsbreytinga af mannavöldum. Í því felast mörg græn tækifæri fyrir jarðhitabæinn okkar. Til að nýta þau tækifæri þurfum við að efla þekkingar- og rannsóknastarf á sviði sjálfbærnifræða verulega. Ef ekki hér, hvar þá?

Grænt og sjálfbært samfélag!
Umhverfismálin eru okkur sérstaklega hugleikin. Við í Okkar Hveragerði viljum, í samvinnu við íbúa bæjarins, gera Hveragerði að grænu og sjálfbæru samfélagi þar sem umhverfisvernd og virðing fyrir náttúru bæjarins og nágrenni skipar veigamikinn sess. Gróðurhúsin okkar eru þar í lykilhlutverki. Við viljum vernda þau og gefa þeim nýtt hlutverk frekar en rífa niður.

Hveragerði innan jarðvangs?
Við viljum líka kanna, í samstarfi við landeigendur á Hengils- og Hellisheiðarsvæðinu, hvort svæðið geti fengið alþjóðlega vottun sem jarðvangur. Hveragerði gæti orðið meginhliðið inn í jarðvanginn og með góðri skipulagningu yrði bærinn og nærumhverfi hans ný ferðaperla sem höfðar til ferðalanga sem leita að friðsæld og náttúrufegurð.

Þetta eru bara nokkur dæmi um það sem Hveragerðisbær getur gert til að stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu. Tækifæri Hveragerðis til að vaxa og dafna enn frekar eru fjölmörg og besta leiðin til að virkja þau er að kjósa Okkar Hveragerði til forystu til næstu fjögurra ára. Við þurfum nýjar og ferskar hugmyndir, virkara lýðræði, aukið gagnsæi og öflugri framtíðarsýn. XO – best fyrir Hveragerði!

 

Njörður Sigurðsson, 1. sæti X-O í Hveragerði.
Þórunn Pétursdóttir, 2. sæti X-O í Hveragerði.