0 C
Selfoss
Home Kosningar Bláskógabyggð Skynsamleg framtíðarsýn

Skynsamleg framtíðarsýn

0
Skynsamleg framtíðarsýn
Helgi Kjartansson.

Hlutverk sveitarfélaga snýst um að þjónusta íbúana og þá gesti er þá heimsækja eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Þjónustan er af ýmsum toga eins og rekstur leik- og grunnskóla, rekstur sundlauga, íþróttahúsa og snjómokstur svo fáein dæmi séu tekin. Öll þessi þjónusta tekur til sín fjármagn sem kemur frá sameiginlegum sjóði íbúa sveitarfélagsins. Það er því skylda hverrar sveitarstjórnar að fara vel með sameiginlegu sjóði íbúana og að rekstur þess sé réttu megin við strikið. Því má segja að rekstur sveitarfélags sé eins og að reka heimili tekjurnar þurfa að standa undir gjöldunum og mikilvægt er að til sé varasjóður til að mæta óvæntum áföllum. Stefna T-listans fyrir komandi kjörtimabil er að ábyrgð verði sýnd í rekstri Bláskógabyggðar, það má ekki gerast að sá árangur sem náðst hefur á undanförnum árum verði tapað niður með óraunhæfum hugmyndum og óskynsamlegum rekstri. Ef reksturinn er ekki í jafnvægi verður þjónustan ekki góð. Það er því hagur allra íbúa í Bláskógabyggð að sveitarfélagið sé rekið með skynsamlegum hætti.

Við á T-listanum höfum lagt fram metnaðarfulla málefnaskrá sem er raunhæf, skynsamleg og mun um leið auka þjónustustig við okkar íbúa. Þessi málefni sem við leggjum fram höfum við unnið eftir gott samtal við okkar íbúa og með þá reynslu sem við á T-listanum búum yfir. Þess má geta að sveitarstjórnarreynsla fimm efstu manna á T-listanum er samtals 24 ár.

Það er margt búið að framkvæma og gerast í sveitarfélaginu á síðasta kjörtímabili, það eru margar áskoranir framundan í ört stækkandi sveitarfélagi þar sem tækifærin eru út um allt. Því er mikilvægt að tryggja að sú reynsla sem T-listinn býr yfir og sú framtíðarsýn sem listinn vill vinna eftir fái gott brautargengi í kosningunum sem framunda eru.

Á uppgangstímum er mikilvægt að stöðugleiki sé til staðar í sveitarstjórn. Með því að fela T-listanum stjórnun sveitarfélagsins er fólk að kjósa stöðugleika, trausta stjórnsýslu og að unnið sé eftir ákveðinni stefnumörkun og framtíðarsýn.

Munum að nýta kosningaréttinn, mæta á kjörstað og kjósa T-listann.

 

Helgi Kjartansson, skipar 1. sæti á T-listanum í Bláskógabyggð.