11.7 C
Selfoss
Home Fréttir Uppbygging til framtíðar

Uppbygging til framtíðar

0
Uppbygging til framtíðar
Bjarney Vignisdóttir.

Atvinnumál eru einhver stærsta áskorun sem Hrunamannahreppur stendur frammi fyrir í dag. Íbúaþróun sveitarfélagsins hefur verið neikvæð sl. ár (skv. hagstofa.is) og ætlum við hjá Sjálfstæðismönnum og óháðum í Hrunamannahreppi að snúa vörn í sókn í þeim málum. Til að fyrirtæki og einstaklingar sjái hérna tækifæri til að setjast að og hefja uppbyggingu þarf sveitarfélagið að kappkosta við að hafa í boði ódýrar lóðir fyrir fjölbreytta starfsemi, hafa viðtækt samráð við hagsmunaaðila atvinnulífsins á svæðinu og sjá til þess að grunnþjónustan þróist í takt við vöxt sveitarfélagsins. Það mun svo aftur leiða af sér að eftirsóknarvert verður að búa hér, stofna fyrirtæki og stunda atvinnu og íbúafjöldi eykst. Það þarf að efla þær atvinnugreinar sem til staðar eru og styðja við nýsköpun ásamt því að kynna sveitarfélagið sem aðlaðandi og uppbyggilegt fyrir alla aldurshópa.

Lækkum leikskólagjöld
Faglegt og gott starf er unnið í leik- og grunnskólunum í Hrunamannahreppi. Við viljum styðja við það góða starf áfram og leggja áherslu á metnaðarfullt fræðslu- og uppeldisstarf. Stór hluti af ráðstöfunartekjum foreldra með börn í leikskóla fara í leikskólagjöld og ætlum við því að lækka þau jafnt og þétt á kjörtímabilinu, um 30% á fyrsta ári. Við teljum mikilvægt að leikskólapláss standi öllum börnum til boða frá 12 mánaða aldri og einnig munum við afnema álag sem foreldrar 12-18 mánaða barna greiða fyrir leikskólavistun.

Umhverfismál
Hrunamannahreppur er falleg og snyrtileg sveit og ásýnd hreppsins skiptir okkur öll máli. Fjölgun ferðamanna hefur haft í för með sér aukna umferð um viðkvæm svæði og því þarf sveitarfélagið að stuðla að verndun og skipulagningu á fjölförnum ferðamannastöðum. Mikilvægt er að sveitarfélagið haldi skipulagsvaldi yfir sínum afrétti. Til þess að svo verði þarf sveitarfélagið að sýna frumkvæði í skipulagningu afréttarins með það að markmiði að vernda náttúru og stuðla að jákvæðri uppbyggingu svæðisins. Einnig þurfum við að vera til fyrirmyndar í endurvinnslumálum. Því þurfum við að auka flokkun á sorpi með markvissari hætti en gert hefur verið.

 

Bjarney Vignisdóttir skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Hrunamannahreppi.