9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Fegurð Flóans kemur innan frá

Fegurð Flóans kemur innan frá

0
Fegurð Flóans kemur innan frá
Sigurður Torfi Sigurðsson.

Þegar ég keypti jörð mína Stokkseyrarsel vorið 2001 datt mér ekki í hug að það yrði sá staður sem ég myndi festa mínar rætur. Ég hafði hugsað mér að nýta landið til hrossabeitar, en e.t.v. koma mér upp sumar- eða helgardvalarstað. Heilsársbúseta á þessum tíma fannst mér vera fjarstæðukennd, ég hafði margoft keyrt hér um og aldrei skilið hvernig menn gátu unað hér sitt æviskeið á þessu marflata einleita landi. Ég er fæddur og uppalinn í dölum Eyjafjarðar og var vanur að geta hallað mér að fjöllunum og stuðst við þau til beggja handa, fannst fjallahringurinn hér full víður og að hér væri eintómt mýrarfen þar sem hvergi mætti sjá í þúfu eða stein sem hægt væri að tylla sér á. Það var ekki fyrr en ég stoppaði og staldraði við, eftir að ég hafði komist að því að ég ætti hæsta tilboð í jörðina Vestra-Stokkseyrarsel og eftir að ég fór að líta yfir eign mína, þá sá ég það.

Fegurð Flóans kemur innan frá
Náttúrulegt vistkerfi sveitarfélagsins er einstakt á landsvísu. Það byggir á undirliggjandi Þjórsárhrauni sem myndar stórbrotna hraunfjöru, víðáttumiklu votlendi með ótal tjörnum og framburði Ölfusár. Þetta vistsvæði er eitt mikilvægasta svæðið fyrir vatnafugla á landinu sem bæði hafa hér varpsvæði en einnig nota margar tegundir svæðið sem viðkomustað til annarra staða. Sú fjarstæðukennda hugmynd sem upp hefur komið að byggja hér upp alþjóðaflugvöll á einu mikilvægasta fuglasvæði landsins er afar slæm og illa ígrunduð. Ekki nóg með að mikilvægu vistkerfi yrði raskað heldur þyrfti einnig að fara í gríðarmikla efnisflutninga, miljónir rúmmetra að og frá svæðinu. Hvert á að sækja það efni?   Ingólfsfjall?

Náttúruvernd og uppbygging atvinnulífs í sátt við umhverfið er eitt af helstu stefnumálum Vinstri grænna. Sveitarfélagið Árborg þarf að marka langtíma stefnu í atvinnu- og skipulagsmálum sem byggir á sérstöðu og styrkleikum svæðisins og í sátt við náttúru og menn. Styrkleikar Árborgar felast ekki í alþjóðaflugvelli eða tækifærum til stóriðju, heldur á því sem við nú þegar höfum, einstakri náttúru, menningu og sögu svæðisins, mannauði og landbúnaði.

Byggjum sveitarfélagið Árborg í framtíðinni á stefnu Vinstri grænna. Byggjum á innri styrkleikum og fegurð svæðisins.

 

Sigurður Torfi Sigurðsson, skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg.