4.5 C
Selfoss
Home Kosningar Bláskógabyggð Tökum leikskólamál alvarlega

Tökum leikskólamál alvarlega

0
Tökum leikskólamál alvarlega
Freyja Rós Haraldsdóttir.

Þ-listinn í Bláskógabyggð stendur fyrir þor, þekkingu og þjónustu. Þessi kjörorð eiga vel við varðandi áherslu okkar á leikskólamál. Lækkun leikskólagjalda og bættar starfsaðstæður leikskólakennara er meðal þess sem við munum kappkosta að ná fram. Við vitum að umbóta er þörf varðandi leikskólana, sem veita jafn mikilvæga þjónustu og önnur skólastig og við þorum að gera breytingar.

Leikskólar eru ómetanlegir fyrir menntun barna, fyrst og fremst, en einnig njóta foreldrar og atvinnulífið góðs af. Í leikskólum er unnið gott starf og það ber að þakka, en við vitum að skortur er á fagmenntuðum leikskólakennurum og starfsmannavelta á leikskólum er of mikil. Lítil börn þurfa góðan stöðugleika og tækifæri til að mynda tengsl. Leikskólakennarar hafa sóst eftir kjarabótum og lagðar hafa verið fram tillögur til að bæta starfsumhverfi. Því ber að taka alvarlega. Meðal þeirra leiða sem ættu að vera nokkuð greiðfærar má nefna að auka undirbúningstíma, veita fjármagni til heilsueflingar og styðja betur við karla og konur sem leggja stund á nám í leikskólakennarafræðum. Starfið þarf að vera samkeppnishæft og eins aðlaðandi og kostur er.

Svo eru það leikskólagjöldin. Eins og fram hefur komið þá eru leikskólar sjálfsagður hluti af nútímasamfélagi og það ætti því að vera samfélagslegt verkefni að reka þá vel. Það munar um það fyrir fjölskyldur að borga þá tugi þúsunda í hverjum mánuði sem sveitarfélagið rukkar í leikskólagjöld. Hinsvegar skila gjöldin tiltölulega litlu í kassa sveitarfélagsins, þegar heildarmyndin er skoðuð. Miðað við fjárhag Bláskógabyggðar er svigrúm til að lækka þessi gjöld og efla á sama tíma leikskólastarf. Það mun skila sér til lengri tíma, m.a. með því að gera Bláskógabyggð að vænlegri búsetukosti fyrir ungt fólk. Framúrskarandi leikskólar, sem reknir eru af samfélaginu í heild, gera sveitarfélagið okkar sterkara og réttlátara.

Nánari útfærslur verða settar fram á vefsíðu Þ-listans; xblaskogabyggd.is.

 

Freyja Rós Haraldsdóttir skipar 4. sæti á Þ-listanum í Bláskógabyggð.