8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Áfram uppbygging í Hveragerði

Áfram uppbygging í Hveragerði

0
Áfram uppbygging í Hveragerði
Aldís Hafsteinsdóttir, Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.
Aldís Hafsteinsdóttir.
Eyþór H. Ólafsson.

D-listinn í Hveragerði vill búa íbúum bæjarins bestu mögulegu skilyrði og sjá til þess að hér dafni blómlegt atvinnulíf. Aðstæður þurfa að vera með þeim hætti að hér vilji fólk búa og stofna fyrirtæki. Einnig er mikilvægt að hlúð sé að þeim fyrirtækjum sem hér í dag. Sem dæmi um það má nefna að fulltrúar D-listans hafa barist ötullega fyrir hagsmunum Heilsustofnunar NLFÍ þegar á hefur þurft að halda.

Fjölbreytt lóðaframboð
D-listinn mun áfram vinna ötullega að fjölbreyttu atvinnulífi eins og gert hefur verið undanfarin ár. Dæmi um slíkt er samningur sem náðist um flutning bæjarskrifstofunnar í miðbæinn en við það losnaði dýrmætt verslunarrými í verslunarmiðstöðinni sem gaf fyrirtækjum í því húsi meira rými og vonandi munu þar skapast ný störf. Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings flutti á sama tíma til Hveragerðis og þar sköpuðust 10 störf sérfræðinga. Með því að veita afslátt af gatnagerðargjöldum hófu margir framkvæmdir en þar er langstærst viðbygging við Hótel Örk en með henni mun skapast fjöldi nýrra starfa. Er þá fjölmargt enn ótalið.

Afslættir hvetja til reksturs í garðyrkju
Hveragerði er þekktur sem blómabærinn. Til eflingar þeirri ímynd mun D-listinn bjóða þeim sem hug hafa á rekstri garðyrkjustöðva fjárhagslega hvata til dæmis með afslætti af fasteignagjöldum og/eða gatnagerðargjöldum. Hveragerðisbær eignaðist stóra garðyrkjustöð nýlega vegna skipulags og hefur hún verið leigð til garðyrkjubænda sem þar með gátu aukið við rekstur sinn. Mun á næstunni verða skoðað með hvaða hætti rekstur í gróðurhúsum getur eflt atvinnulíf og ímynd bæjarfélagsins.

Atvinnutækifærum hefur fjölgað
Það er kappsmál allra að í hverju bæjarfélagi dafni heilbrigt og fjölbreytt atvinnulíf. Í Hveragerði hefur skráðum fyrirtækjum fjölgað um 22% eða um 40 á milli áranna 2015 og 2018. Það er afar ánægjuleg staðreynd og ber vitni um grósku og fjölbreytni. Fulltrúar D-listans fagna því að dugmiklir einstaklingar skuli velja bæjarfélagið til búsetu en ekki síður fögnum við hverjum þeim sem með dugnaði og elju velur að hefja rekstur í bæjarfélaginu okkar. Við það munum við styðja, hér eftir sem hingað til.

Aldís Hafsteinsdóttir, 4. sæti á D-listanum í Hveragerði
Eyþór H. Ólafsson, 1. sæti á D-listanum í Hveragerði