2.3 C
Selfoss

Veist þú hvar barnið þitt er?

Vinsælast

Sumarið er tíminn sem nær allir hlakka til, ekki síst unga skólafólkið sem nú fær kærkomið frí frá skólastarfinu. Bjartar nætur, sólskin á daginn, ferðalög og samverustundir með fjölskyldu og vinum eru í algleymingi og margt fleira skemmtilegt á döfinni. Sumarið er bæði skemmtilegasti tími ársins og getur jafnframt verið sá hættulegasti. Það losnar dálítið um rammann utan um börn og ungmenni. Stundum er eins og foreldrum finnist þeir ekki þurfa að fylgjast jafnvel með börnunum sínum á björtum sumarnóttum og á dimmum vetrarkvöldum. Athygli foreldra er vakin á því hversu mikilvægt er að fylgja lögum um útivistartíma.

Lög um útivistartíma gilda allt árið umkring. Frá 1. maí til 1. september mega börn 12 ára og yngri ekki vera úti lengur en til kl. 22:00, börn á aldrinum 13–16 ára mega ekki vera lengur úti en til kl. 24:00. Yfir vetrartímann styttist þessi tími um 2 klukkustundir. Útivistarreglurnar eru samkvæmt barnaverndarlögum. Bregða má út af reglunum um útivistatíma fyrir börn 13–16 ára þegar unglingar eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Foreldrum/forráðamönnum er að sjálfsögðu heimilt að stytta þennan tíma og setja börnum sínum reglur um styttri útivistartíma en hér segir.

Nægur svefn er mikilvæg forsenda góðrar heilsu og vellíðunar. Börn og unglingar sem eru úti langt fram á kvöld eru líklegri til að fara fyrr að fikta við áfengi, tóbak og fíkniefni. Foreldrar eru lykilatriði í að beina börnum sínum inn á heilbrigðan lífsstíl. Börn og ungmenni þurfa umhyggju, nærgætni, vernd, aðhald og eftirlit og hafa rannsóknir sýnt fram á að þessir þættir draga mjög úr líkum á áhættuhegðun unglinga.

Foreldrar þurfa að vera duglegir að ræða við börnin sín um afleiðingar neyslu áfengis, tóbaks eða annars konar vímugjafa og hvernig hægt er að segja nei við því. Þannig verður unglingurinn betur í stakk búinn til að standast hópþrýsting og ánægðari með sjálfan sig sem einstakling. Foreldrar unglinga þurfa að standa saman og senda skýr skilaboð um útivistartíma og um það að vímugjafi sé ekki leyfilegur. Hægt er í því samhengi að benda á lögin til staðfestingar.

Einnig er mikilvægt að fullorðnir láti sig annarra börn varða og láti vita ef þeir verða t.d. varir við drykkju, reykingar eða aðra vímugjafa í vinahópnum. Ef unglingurinn kemur heim undir áhrifum vímugjafa hvort sem það er áfengi eða annað er ekki besta ráðið að hella sér yfir hann með skömmum þá stundina, þó það geti verið freistandi. Betra er að koma unglingnum í háttinn og ræða við hann í rólegheitunum daginn eftir.

Foreldrar, tökum ábyrgð á börnunum okkar, ræðum opinskátt við unglinginn um áfengi og önnur vímuefni. Þekkjum vini barnanna okkar og sýnum lífi þeirra áhuga. Foreldrar eru mikilvæg fyrirmynd barna og ungmenna, verum fyrirmynd fyrir þau. Vertu alltaf viss um það hvar barnið þitt er og hverja það umgengst.

Anný Ingimarsdóttir, félagsráðgjafi hjá Sveitarfélaginu Árborg.

Nýjar fréttir