4.4 C
Selfoss

Selur hönnunarvörur sínar á Selfossi

Vinsælast

Jóna Kristín Snorradóttir kjólaklæðskeri opnaði nýlega vinnustofu við heimili sitt að Birkivöllum 5 á Selfossi. Þar býður hún upp á glæsilegan kvenfatnað sem hún hannar sjálf. Hún selur einnig vörur sínar í versluninni Jöklu á Laugavegi 90 í Reykjavík

Jóna Kristín er lærður kjólaklæðskeri úr Tækniskólanum, útskrifaðist þaðan árið 2003. Hún er fædd í Hveragerði en hef verið búsett á Selfossi síðustu fimm ár. Þar áður bjó hún ásamt manni sínum í Danmörku í fimm ár og var m.a. í markaðsfræðinámi í tvö ár ásamt textílnámi.

„Ég er búin að vera með merkið mitt JK Design síðan 2006. Áður var ég aðallega í sérsaumi og allskonar því tengdu. Við fluttum aftur til Íslands 2013 og fljótlega eftir það komst ég í samstarf með öðrum hönnuðum í Reykjavík. Það gerði ég til þess að koma mér á framfæri. Þar opnaði ég búðina Jöklu á Laugavegi 90 en þar erum við tíu hönnuðir saman. Við seljum þar beint frá hönnuði. Þar er ég með mína aðal aðstöðu,“ segir Jóna Kristín.

Um miðjan apríl opnaði Jóna Kristín vinnuaðstöðu baka til heima hjá sér á Birkivöllum 5 á Selfossi. Hún segir að fólk geti kíkt til sín á vinnustofuna eða haft samband ef það vill koma og skoða. „Ef skiltið er úti er opið hjá mér. Ég verð með ákveðna opnunartíma og mun auglýsa þá inn á Facebook-síðunni minni.“

Jóna Kristín var spurð í hverju vinna hennar felist þ.e. hvað hún sé helst að gera.

„Ég er mest í því að gera kvenfatnað, er með kjóla, samfestinga, leggings, klúta og peysur. Ég hanna efnin mín sjálf, tek myndir og læt prenta á þau. Ég nota svolítið myndir úr landslagi eins og t.d. af fjöðrum, fuglum og alls konar svoleiðis. Ég stíla mest inn á kvenfatnað. Aðal áherslurnar í fatnaðinum er bara þægilegur fatnaður sem er sparilegur og gott að vera í. Ég legg mikla áherslu á gæðaefni. Þar er ég m.a. með silki og önnur góð efni,“ segir Jóna Kristín og bætir við:

„Hvað stílinn minn varðar að þá er það náttúrulega mikið fuglar og fjaðrir og landslag líka. Ég nota t.d. snjómunstur og marga liti. Oft er það svartur í grunninn og svo alls konar litir með . Það er stundum svolítið árstíðabundið. Svo er ég líka með klassíska kjóla með blúndum sem má nota við sparilegri tilefni.“

Jóna Kristín verður með fasta opnunartíma í vinnustofunni á Selfossi einu sinni í viku á þriðjudögum kl. 14–18. Annars er hægt að hafa samband við hana hvenær sem er. Hún er á vinnustofunni flesta daga nema einu sinni í viku. Einnig er hún með netverslun www.jkdesign.is.

Nýjar fréttir