9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Íbúalýðræði

Íbúalýðræði

0
Íbúalýðræði
Álfheiður Eymarsdóttir.

Íbúum sveitarfélaga er tryggður réttur til að hafa áhrif á og koma að stjórn sveitarfélagsins og stefnumótun þess í 10. kafla sveitarstjórnarlaganna.

Reyndin hefur þó verið sú að sveitarfélög vanrækja skyldur sínar til að upplýsa og leita samráðs. Í sumum tilfellum er markvisst komið í veg fyrir að þessi réttur sé virkjaður.

Léleg upplýsingaveita á úreltu, alltof flóknu vefsvæði leggur stein í götu íbúalýðræðis. Við vitum öll að forsenda þess að hafa áhrif og geta tekið þátt er aðgangur að upplýsingum. Þess vegna þurfum við að hanna og smíða vefsvæði sem sæmir stóru sveitarfélagi og er í takt við þarfir íbúa til þjónustu og upplýsinga.

Árborg hefur sett þau skilyrði fyrir íbúakosningum að a.m.k. 29% íbúa með kosningarétt þurfi að skrifa undir áskorun til að krefjast kosninganna. Þetta er nánast hámarksþröskuldur skv. lögunum og alltof hátt hlutfall. Það er sveitarfélaginu í lófa lagið að lækka þennan þröskuld ef vilji stendur til aukins íbúalýðræðis. Það verður fróðlegt að fylgjast með hversu lýðræðislega sveitarfélagið bregst við undirskriftasöfnun sem er nýlokið vegna miðbæjarskipulags.

Það er nauðsynlegt að lækka þennan þröskuld verulega og ennfremur að gera íbúakosningar bindandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það er of algengt að yfirvöld umgangist ráðgefandi kosningar eins og skoðanakönnun þar sem auðvelt er að ganga framhjá niðurstöðum.

Við þurfum líka að efla hverfaráðin. Árborg er dreift sveitarfélag og allir byggðakjarnar skulu eiga sína rödd. Með öflugum hverfaráðum sem hafa skýrar valdheimildir og fjárráð er hægt að tryggja íbúum allsstaðar í sveitarfélaginu virka aðkomu að ákvörðunum um nærsamfélagið. Ráðgefandi og valdlaus hverfaráð er bara dýrir fundir úti í bæ.

Dýrar skoðanakannanir og dýrir málfundir eru léleg uppskrift að íbúalýðræði. Þessu viljum við breyta.

Opið bókhald, skilvirkt vefsvæði með skýrum upplýsingum, þjónustu- og notendaráð, íbúaþing, borgarafundir, hverfaráð og íbúakosningar eru allt tæki til að tryggja raunverulegt lýðræði. Með tækni 21.aldar er auðvelt og hagkvæmt að tryggja íbúalýðræði. Raunverulegt lýðræði er nefnilega svo miklu meira en að kjósa á fjögurra ára fresti.

Álfheiður Eymarsdóttir, skipar 2. sæti fyrir Áfram Árborg.